
Rio Tinto sækir um nýtt starfsleyfi
Stjórnendur Rio Tinto hafa sagt að álframleiðsla hér á landi sé ekki samkeppnishæf vegna hás orkuverðs. Endurskoðun á starfseminni hefur verið boðuð og sex stéttarfélög starfsmanna álversins vísuðu kjaradeilu sinni við Rio Tinto til ríkissáttasemjara í síðasta mánuði. Engir fundir hafa enn verið haldnir í deilunni.
Álver Rio Tinto í Straumsvík er eina álver félagsins sem eftir er í Evrópu. Núverandi starfsleyfi fyrirtækisins rennur út 1. nóvember næstkomandi, samkvæmt frétt á vef Umhverfisstofnunar sem veitir starfsleyfið. Þar segir að heimilt sé að framlengja gildistíma núverandi starfsleyfis í allt að eitt ár á meðan nýtt leyfi sé í vinnslu.
Í fréttinni segir að nú sé unnið úr umsókninni og að gert starfsleyfistillögu. Tillaga að starfsleyfi verður auglýst opinberlega þegar hún liggur fyrir og gefst þá öllum tækifæri að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.