Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nokkrir sjálfstæðismenn óánægðir með aðgerðirnar

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög gagnrýnir á aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru á föstudaginn. Þetta segir formaður þingflokksins sem vill að Alþingi skoði hvort aðgerðirnar séu nauðsynlegar og gangi ekki of langt miðað við tilefnið.  

Sigríður Á. Andersen segir ótækt að jafn viðamiklar og ótímabundnar aðgerðir séu ákvarðaðar með reglugerð án aðkomu þingsins. 

Gangi ekki lengra en tilefnið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgir Ármannsson

Flokksbróðir hennar og formaður þingflokksins, Birgir Ármannsson, segir gagn af því að þingið fjalli um slíkar ákvarðanir annars vegar til þess að kanna hvort lagaheimildir séu nægilega skýrar ekki síst eigi aðgerðir að standa mánuðum saman:

„Þá held ég að það sé ljóst að þingið verði að eiga aðkomu að því. Síðan þarf þingið auðvitað líka að taka umræðu um það í samhengi við þessar aðgerðir sem bæði er verið að grípa til núna  og kann að koma til að gripið verði til í framtíðinni hvort að þær eru nauðsynlegar og gangi ekki of langt miðað við tilefnið,“ segir Birgir. 

Hann segir að þegar þingið komi saman verði að fjalla um hvernig haga eigi reglusetningu á þessu sviði til frambúðar. 

Efast um að aðgerðirnar hafi verið nægilega undirbyggðar

Var mikil óánægja innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins með þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók, þá vísa ég til dæmis í skoðanir Sigríðar Andersen?

Ja, það er alveg ljóst að það eru ýmsir í þingflokknum, sem hafa verið mjög gagnrýnir á þessar síðustu aðgerðir. Það hefur verið tiltölulega góð sátt um hvernig stjórnvöld hafa haldið á málum fram að þessu. En ég get alveg staðfest það að það eru fleiri en einn og fleiri en tveir og fleiri en þrír í þingflokki sjálfstæðismanna sem hafa efasemdir um það að aðgerðirnar síðast liðinn föstudag hafi verið nægilega vel undirbyggðar.“

Hvöttu til meira samráðs

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki taka gagnrýni þingmanna til sín enda beri honum lögum samkvæmt að skila tillögum til ráðherra. 

„Ég held að þetta sé frekar gagnrýni á það að það er beðið um meira samráð almennt séð,“ segir Þórólfur.

Þú ert náttúrulega fylgjandi því líka?

„Já, já, í raun og veru voru ég og Almannavarnir sem að hvöttu til að hafa þennan samráðsvettvang og við höfum margoft talað fyrir því að nú þurfi fleiri að koma að borðinu og ræða málin og það þarf að taka tillit til fleiri sjónarmiða.“

Sigmundur Davíð segir óvissuna allsráðandi

Í sjónvarpsfréttum í fyrradag var talað við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um aðgerðir ríkisstjórnarinnar nema Miðflokkinn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segist ekki treysta sér til þess að tjá sig um aðgerðirnar enda hafi ekkert samráð hafa verið haft um forsendur ákvarðana og aðgerða. Þingflokkurinn sé sömu skoðunar og óvissa sé allsráðandi og það sé það versta fyrir fólk og fyrirtæki. 

Alþingi kemur saman 27. ágúst til 4. september.