Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Miklir vatnavextir og flóðahætta í Kína

20.08.2020 - 06:41
Erlent · Hamfarir · Asía · Flóð · Kína · Veður
epa08612418 A view of the Leshan Giant Buddha as floodwater reaches the statue's feet following heavy rainfall in Leshan, Sichuan province, China, 18 August 2020 (issued 19 August 2020). Authorities were forced to evacuate more than 100,000 people on 18 August 2020 after flooding on the upper reaches of the Yangtze river, and flood water reaches the feet of the Leshan Giant Buddha, 1,200-year-old world heritage site.  EPA-EFE/LI XINFENG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - COSTFOTO
Vatnshæð lónsins ofan við hina ógnarstóru Þriggja gljúfra stíflu í Jangtsefljóti í Kína er meiri en nokkru sinni og yfir 100.000 manns hafa hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna flóða og flóðahættu. Miklir vatnavextir eru líka í ánum Minj og Dadu í aðliggjandi héraði, og er nú svo komið að risavaxin Búddastytta við ármótin er farin að blotna í fæturna.

Styttan er á heimsminjaskrá UNESCO, hún er 71 metra há og þjóðtrú sveitunga hennar er sú, að flæði yfir fætur Búdda sé stutt í að byggð fari á kaf. Rúm 70 ár eru síðan vatnshæð hefur verið svona mikil á þessum stað. Styttan er vinsæll viðkomustaður ferðafólks og samkvæmt kínverskum fjölmiðlum þurfti að bjarga um 180 manns frá fótum Búdda þegar hækka tók í ánni.

Hæsta viðbúnaðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir í Sichuan-héraði vegna vatnavaxtanna, sem rekja má til margra vikna úrhellis sem enn sér ekki fyrir endann á. Flóðaviðvaranir eru í gildi í fjölda héraða meðfram Jangtsefljóti, Gulafljóti og þremur stórfljótum til viðbótar, auk þess sem varað er við hættu á skriðuföllum.