Kórónuveirusmit í kvennaliði KR

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Kórónuveirusmit í kvennaliði KR

20.08.2020 - 11:50
Starfsmaður kvennaliðs KR í fótbolta hefur greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19. Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar félagsins, staðfesti þetta við Íþróttadeild RÚV í dag.

Einn úr starfsliði meistaraflokks kvenna hjá KR hefur greinst með kórónuveiruna og stendur smitrakning yfir. Líklega þarf allur leikmannahópur liðsins auk þjálfara og starfsmanna að fara í sóttkví.

Liðið átti að mæta Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld og er næsta víst að þeim leik verður frestað.

Þetta er í þriðja sinn sem leikmannahópur liðsins fer í sóttkví í sumar. Liðið fór í sóttkví eftir að smit kom upp hjá Breiðabliki í júní og aftur í byrjun ágúst þegar einstaklingur tengdur liðinu greindist með veiruna.

Karlalið félagsins er í 5-6 daga sóttkví eftir að hafa leikið Evrópuleik í Skotlandi í fyrrakvöld.