
Kamala Harris: „Ekkert bóluefni til gegn rasisma“
Mikilvægt hlutverk kvenna
Í upphafi ávarps síns lagði hún áherslu á mikilvægt framlag kvenna, sem kynslóðum saman hafa unnið að því að „gera lýðræði og jöfn tækifæri að veruleika." Þær, sagði Harris, „ruddu brautina fyrir frumkvöðlastarf leiðtoganna Baracks Obama og Hillary Clinton, og þessar konur veittu okkur innblástur til að taka við kyndlinum og berjast áfram."
Skortur á forystu hefur kostað mannslíf
Hún sagði Bandaríkin land „þar sem við erum ef til vill ekki sammála um hvert smáatriði, en erum sameinuð í þeirri grundvallartrú, að hver manneskja sé óendanlega mikils virði.“ Í nánast beinu framhaldi af þessu beindi hún talinu að Donald Trump og sagði að misheppnuð forysta hans „kostað líf og lífsviðurværi“ þúsunda Bandaríkjamanna. „Við erum þjóð sem syrgir - syrgir líf sem hafa glatast, störf sem hafa glatast og öryggi sem hefur glatast.“
Ekkert bóluefni gegn rasisma
Harris var ekki síður gagnrýnin á viðbrögð Trumps við viðvarandi kynþáttamisrétti og ofbeldi gegn svörtum Bandaríkjamönnum og þeirri miklu mótmælaöldu sem risið hefur síðustu vikur og mánuði vegna þessa. „Við skulum hafa það á hreinu: Það er ekki til neitt bóluefni gegn rasisma,“ sagði varaforsetaefnið.
„Fyrir George Floyd. Fyrir Breonna Taylor. Fyrir of mörg líf önnur til að hægt sé að telja þau öll upp. fyrir börnin okkar. Fyrir okkur öll.“ Þess vegna, sagði Harris, verða Bandaríkjamenn að kjósa forseta sem býður annað og betra en sá sem nú er við völd. Forseta sem sameinar þjóðina, „svarta, hvíta, rómanska, asíska, innfædda - til að við getum skapað þá framtíð sem við öll viljum.“