Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Færri treysta sóttvörnum annarra

Mynd: Þórunn Elísabet Bogadóttir / Morgunvaktin
Trú Íslendinga á sóttvarnaaðgerðir yfirvalda hefur minnkað síðan í fyrsta faraldri COVID-19 og þeim hefur fækkað sem treysta því að aðrir viðhafi sóttvarnir. Mikill meirihluti fer eftir tilmælum um sóttvarnir og fjarlægðarmörk.Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Sigrúnar Ólafsdóttur og Jóns Gunnars Bernburg, prófessora í félagsfræði við HÍ, á viðhorfum Íslendinga til COVID-19 faraldursins. 

 

Rannsóknin hófst í upphafi fyrsta faraldursins og var tekin aftur upp þegar önnur bylgja hans fór af stað. Þar er afstaða Íslendinga til ýmissa þátta sem tengjast faraldrinum könnuð. 

Sigrún og Jón voru gestir Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun. Þau segja talsverðan mun hafa mælst á viðhorfum fólks nú og í faraldrinum í vor þegar 90% sögðust fylgja fyrirmælum. Nú segjast 70% gera það. Þá hafa færri trú á aðgerðum stjórnvalda.

„Síðan sjáum við líka að fólk hefur minni trú á að  fólkið úti í samfélaginu sé að fylgja tilmælunum. Það er sláandi munur þar,“ sagði Jón Gunnar.

„Varðandi fylgni einstaklings við aðgerðir, þegar fólk er spurt hvort það fylgi tilmælum, þá sjáum við mun. En þátttakan í fyrri bylgju faraldursins var 90%. Núna virðist hún vera í kringum 70%.“

 

Meðal annarra þátta sem fram komu var að fólk hittir fleiri núna en í vor, og að konur og eldra fólk fara helst  eftir tilmælum sóttvarnayfirvalda. Það vakti athygli rannsakenda að þegar rannsóknin hófst í upphafi faraldursins í vor sagðist fólk hafa hitt þrjá að meðaltali undanfarna þrjá sólarhringa. Undir lok faraldursins var þessi tala komin upp í tíu . Í upphafi annars faraldurs hitti fólk að meðaltali níu manns á sólarhring, en sú tala lækkaði fljótlega niður í sex og hefur haldist þar.

„Við erum hætt að trúa því að við séum öll í þessu saman og Íslendingar séu allir að fylgja þessu og það er minni trú á árangri,“ sagði Sigrún.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir