Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Engin rassblaut skaut í Fimmunni að þessu sinni

Mynd með færslu
 Mynd: Republik - Folklore

Engin rassblaut skaut í Fimmunni að þessu sinni

21.08.2020 - 12:44

Höfundar

Við höldum okkur frá hávaða og látum, glysi og gellustælum í Fimmunni í dag þó popppressan sé upptekin af því. Í staðinn rennum við okkur í glænýja folk- og sveitatónlist frá núverandi þunglyndisheimsmeistara, Bíómynda-bluegrass- drottningu, poppprinsessunni af Nashville, mikilmennskubrjálæðingi í hvítum jakkafötum og breskri folk-stjörnu.

Bill Callahan – Breakfast

Þunglyndissnillingurinn Bill Callahan er að gefa út ný lög af plötunni sinni Gold Record á mánudögum til að kynna hana ... af því að þannig er hann bara. Platan kemur út í byrjun september og á henni er lagið Breakfast sem fjallar um, jú, morgunmat en líka súra sambúð og ýmislegt fleira.


Gillian Welch – Valley of Tears

Lagið Valley of Tears er að finna á plötu Boots no. 2: The Lost Songs sem var upphaflega tekin upp til að fylla upp í plötusamning á einni helgi 2002. Gillian Welch og félagi hennar David Rawling hafa í gegnum tíðina ekkert verið að skjóta út plötu í hverri viku. En eftir að þau misstu næstum því stúdíóið sitt og allar demóupptökur í fellibyl fyrir stuttu hafa þau skipt um stefnu í útgáfumálum.


Taylor Swift – Seven

Það virðast flest vera að hlusta á folklore þessa dagana hvort sem þau voru að spá í Taylor Swift eða indie-folk-stefnuna yfirhöfuð. Platan fær frábæra dóma og eflaust mörg komin með uppáhaldslag af henni, Seven er sennilega eitt af þeim betri.


Father John Misty – To S.

Það hefur ekki heyrst mikið í Father John Misty í að verða tvö ár en hann gaf út tvö lög í vikunni, To S og To R. Fyrir gamla aðdáendur er þetta mjög heimilslegt allt saman og fínt að sjá hann sé enn á lífi en þetta bætir svo sem engu við.


This is the Kit – This is What You Did

This is the Kit er bandið hennar Kate Stables og er tilbúið með nýja plötu sem var tekin upp fyrir kóvidlokun og kemur loksins út í september. Platan er unnin í samvinnu við Josh Kaufman úr Bonny Light Horseman og This is What You Did er fyrsti söngull af henni sem fær mann til þess að hugsa alvarlega um að kaupa sér banjó.


Fimman á Spottanum

Tengdar fréttir

Popptónlist

Óður til holdvotra skauta klýfur internetið