Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Breytingar á hömlum á næsta leiti

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Landamæraaðgerðir verða endurskoðaðar eftir eina til tvær vikur, segir sóttvarnalæknir. Þeim þurfi þó að halda áfram. Hann telur að fljótlega verði hægt að slaka á hömlum innanlands. 

Getum vonandi slakað á fljótlega

Innanlandssmitin voru tvö í gær og hafa verið tvö til fjögur daglega síðan á sunnudag. Sóttvarnalæknir segir að ekki myndi koma á óvart að næstu dagana greindust nokkur smit. Sér sýnist smitrakningateymið hafa náð utan þetta og tekist að stöðva ný smit. 

„Við erum rakningu og veirugreiningu í kringum þessi tilfelli þ.a. vonandi förum við ekkert að fá stærri hópsýkingar. Við þurfum að gæta áfram vel að öllum varúðarráðstöfunum hér innanlands og vonandi tekst okkur bara að ná mjög góðum tökum á þessum innanlandssmitum þannig að við getum fljótlega farið að slaka frekar á hömlum hér innanlands. Ég held að svona það sem er í pípunum núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Ekki rétt að vilji óbreytt á landamærunum

Hann segir að orð sín undanfarið um að landamæraaðgerðir þurfi að vera eins og þær eru núna í einhverja mánuði eða ár vera á misskilningi byggðar. 

„Það er nú er nú ekki það sem ég hef sagt heldur að það þurfi að vera einhvers konar takmarkanir og einhvers konar aðgerðir á landamærunum. En eins og annað sem við erum að gera þá þarf það að vera í sífelldri endurskoðun og svo er einnig um þessar aðgerðir. Ríkisstjórnin hefur sagt að þessar aðgerðir fari í endurskoðun eftir eina til tvær vikur og það er nokkuð það sama og við höfum verið að tala um.“

Skýringin vöxtur í öðrum löndum

Virku smitin eru miklu fleiri á landamærunum núna en var í júlí eins og sagt var frá í fréttum í gær. 

„Það er kannski erfitt að benda á einn þátt en kannski augljósasta dæmið er það að faraldurinn er í vexti erlendis í öllum löndum. Þannig að það eru fleiri sem eru að smitast og við erum að sjá náttúrulega marga sem eru með lítil eða engin einkenni.“

10 til 100 þúsund króna sekt fyrir grímuleysi

Ríkissaksóknari hefur gefið út fyrirmæli um sektarheimildir um brot á tveggja metra reglunni og grímunotkun. Ef skipuleggjendur starfsemi tryggja ekki tvo metra milli fólks sem ekki deilir sama heimili eru sektir hundrað til fimmhundruð þúsund. Sama sektarfjárhæð er til þeirra brjóti þeir reglur um andlitsgrímur. Sekta má einstaklinga sem ekki nota andlitsgrímu þar sem það á við um tíu til hundrað þúsund krónur. Ekki er búist við að beita þurfi sektum. 

„Ég á ekki von á því. Þetta er í frekar afmörkuðum aðstæðum þar sem grímunotkun er skylda þ.e.a.s. í almenningssamgöngum í lengri ferðum. Og ég hef bara enga trú á því að þetta verði. Og við höfum alla vega fengið þær upplýsingar bæði frá ferjunum, innanlandsfluginu og frá Strætó að þar sem þetta er að þá virði fólk bara þetta almennt og það hefur ekki komið til neinna vandræða,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Upplýsingafundur Almannavarna í dag.