Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tugir vissu ekki af hertum reglum

19.08.2020 - 19:33
Ferðamaður á Keflavíkurflugvelli. Mynd úr safni. - Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Tugir ferðamanna sem komu hingað til lands í dag vissu ekki af kröfunni um fimm daga sóttkví sem tók gildi á miðnætti. Átta flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli var aflýst.

Nýjar reglur um sóttvarnir kveða á um að allir farþegar sem koma hingað til lands fari annaðhvort tvisvar í sýnatöku með fimm daga sóttkví á milli eða í fjórtán daga sóttkví. Hluti farþega sem komu til landsins í dag vissi ekki af reglunum og þurfa einhverjir þeirra að vera í sóttkví allan þann tíma sem þeir dvelja hér á landi.

„Fólk þekkir ekki reglurnar. Það veit ekki að það er á leiðinni í fimm daga sóttkví. Mjög stranga sóttkví sem er mun strangari en var. Þetta hefur verið töluvert úrlausnaefni sem við höfum reynt að finna út úr með fólki frekar en að snúa því við en einhverjir hafa íhugað það,“ segir Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri landamæraskimunar. 

Tómlegt var um að litast á Keflavíkurflugvelli í dag en átta flugferðum til og frá landinu var aflýst. Sama fjölda er aflýst á morgun. Um 1.500 manns voru skimaðir í dag en á milli tvö og þrjú þúsund hafa verið skimaðir á landamærunum síðustu daga. Jórlaug segir að flugfélög hafi staðið sig misvel í að láta fólk vita af nýju reglunum. Ábyrgðin sé þó einnig hjá farþegunum sjálfum.

„Stjórnvöld hafa alveg kynnt þetta vel en svo vitum við bara hvernig það er - fólk les ekkert alltaf leiðbeiningar sem það fær,“ segir Jórlaug.