Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfa að vera í sóttkví alla Íslandsdvölina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Hluti þeirra farþega sem komu hingað til lands í morgun vissi ekki af nýjum reglum um skimanir. Sumir þeirra höfðu ekki ætlað að dvelja hér þá fimm daga sem ferðamönnum er nú gert að verja í sóttkví á milli skimana og aðrir þurfa að vera í sóttkví allan þann tíma sem þeir dvelja hér á landi. 

 

Nýjar reglur um sóttvarnir tóku gildi á miðnætti. Allir farþegar sem koma til hingað til lands geta nú valið á milli þess að fara tvisvar í sýnatöku vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins.

Jórlaug Heimisdóttir verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis hefur umsjón með sýnatökunni á flugvellinum. Hún segir að sýnatakan hafi gengið vel það sem af er morgni, enda farþegar fáir - einungis 30-40 í hverri flugvél.

„Við önnum vel þeim fjölda sem er að koma til landsins. Það er svolítið um það að fólk er ekki upplýst um þessar nýju reglur,“ segir Jórlaug.

Hún segir að það hafi sérstaklega átt við farþega í fyrstu vélunum í morgun, sem hafi verið á vegum erlendra flugfélaga. „Þau hafa ekki gefið farþegum sínum upplýsingar um nýjar reglur á Íslandi. Þetta kom fólki í opna skjöldu en svo er spurningin hvort fólk hafa ekki kynnt sér leiðbeiningarnar nógu vel,“ segir Jórlaug.

Jórlaug segir að flestir farþeganna hafi tekist á við aðstæður af rósemi. „En auðvitað kom upp í morgun að fólk var miður sín og reitt yfir því að vera komið í þessar aðstæður. En þetta hefur gengið ágætlega.“

Hún segir að Ferðamálastofa hafi gefið út lista með hótelum sem gefi sig út fyrir að tryggja sóttkví. „Við höfum vísað fólki á þessa lista og þa ðhefur verið eitthvað um að fólk hafi endurbókað hótelin sín í morgun.“

Var eitthvað um það í þeim hópi, sem var að koma til landsins í morgun, að fólk ætlaði að vera skemur en sem nemur þessari sóttkví? „Já. Til dæmis var fólk sem ætlaði að fara á sunnudaginn eða mánudaginn og vera 4-5 daga. Það er þá bara í sóttkví allan tímann sem það ætlar að vera hérna.“