Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skorar á ESB að viðkenna ekki úrslit í Hvíta-Rússlandi

Mynd: EPA-EFE / EPA
Svetlana Tsjíkhanovskaya, frambjóðandi í forsetakosningunum í Hvíta-Rússlandi fyrr í ágúst, hvatti leiðtoga Evrópusambandsins í dag til að viðurkenna ekki úrslit kosninganna. Tsjíkhanovskaya var hrakin úr landi og er nú í Litháen. Hún birti í morgun ávarp þar sem hún segir að Alexander Lúkasjenkó hafi glatað trausti Hvít-Rússa, úrslitin í forsetakosningunum 9. ágúst séu fölsuð.

Friðsamleg barátta fyrir réttindum

 

Aðra vikuna í röð berjast landar mínir friðsamlega fyrir stjórnarskrárbundnum rétti sínum til að kjósa forseta. 

Svetlana Tsjíkhanovskaya.

Kína og Rússland viðurkenna úrslit forsetakosninga

Aðeins örfá ríki, þar á meðal Rússland og Kína, viðurkenna úrslit kosninganna. Bretar hafa þegar lýst yfir að þeir álíti að brögð hafi verið í tafli. Grannríki Hvíta-Rússlands, Eystrasaltsríkin og Pólland vilja að Evrópusambandið beiti Lúkasjenkó og stjórn hans refsiaðgerðum.

Fjölmenn mótmæli og verkföll

Fjölmennustu mótmæli í sögu landsins voru um helgina, þar sem tugþúsundir komu saman og kölluðu eftir því að Lúkasjenkó færi þegar frá. Mótmæli halda áfram og víðtæk verkföll eru þar sem tekið er undir kröfuna um afsögn Lúkasjenkós. 

Vilja fá að velja leiðtoga sjálf

Sænska ríkissjónvarpið ræddi í gærkvöld við mótmælendur í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Þar sagði ung kona að fólk vildi fá að velja leiðtoga sína sjálft.

Við viljum frið, kærleik, skilning og rétt til að velja leiðtoga okkar. Við lifum á 21. öldinni.

Lögreglan sést ekki lengur

Lögregla og öryggissveitir tóku í fyrstu á mótmælendum af mikilli hörku en í gær sáust vart nokkrir lögreglumenn á götum úti, sagði Elin Jönsson fréttamaður SVT.  Fréttir hafa einnig borist af því að lögreglumenn og sumir úr öryggissveitum innanríkisráðuneytisins hafi gengið til fylgis við mótmælendur.

Samhæfingarráð á að sjá um valdaskipti

Svetlana Tsjíkhanovskaya sagði í ávarpi sínu í morgun að hún hefði haft forystu um stofnun samhæfingarráðs Hvíta-Rússlands. Það ætti að sjá um friðsamleg skipti á valdhöfum. Boðað yrði til nýrra forsetakosninga og alþjóðlegu eftirlitsfólki boðið að fylgjast með kosningunum.