Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir hjúkrunarheimili alltaf þung í rekstri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstjóri heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir hjúkrunarheimili alltaf þung í rekstri, þau falli hins vegar ágætlega að starfsemi stofnunarinnar. HSN mun reka Öldrunarheimili Akureyrar frá áramótum og forstjórinn er vongóður um að úttekt á rekstri öldrunarheimila skili auknu fjármagni.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands mun taka yfir rekstur öldrunarheimila Akureyrar frá og með áramótum. „við vorum bara beðin um það að hendi ráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins að taka þetta verkefni að okkur“  Segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. 

Sjá einnig: Ríkið tekur yfir rekstur öldrunarheimila Akureyrar

Akureyrarbær hefur rekið öldrunarheimilin með samningi við Sjúkratryggingar Íslands en bærinn tilkynnti í vor að hann myndi ekki framlengja samninginn sem rennur út um áramót. Sveitarfélög hafa ítrekað kvartað undan þungum rekstri heimilanna og hafa sum borgað hundruð milljóna með rekstrinum þar sem fjárveitingar duga ekki. 

Vonast eftir auknu fjármagni

Jón Helgi segir hjúkrunarheimili alltaf þung rekstrarlega séð. Reksturinn falli hins vegar ágætlega undir starfsemi HSN sem þegar rekur hjúkrunarheimili á fjórum öðrum stöðum. Sérstök nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins mun fara yfir rekstrarforsendur hjúkrunarheimila og Jón Helgi segist vona að því fylgi hugsanlega bætt fjármagn. 

Í tilkynningu um breytinguna kemur fram að HSN taki tímabundið við rekstrinum. Jón Helgi segir það vegna þess að ráðuneytið hafi ekki gert upp við sig hvort reksturinn verið til framtíðar hjá HSN eða hvort hann verði boðinn út síðar. Hann nálgist þetta hins vegar sem verkefni sem þurfi að vinna og gera vel. 

Samstarf milli stofnana

Breytt fyrirkomulag tekur gildi 1. janúar og færast þá á þriðja hundrað starfsmenn öldrunarheimilanna frá Akureyrarbæ til HSN. Jón Helgi segir hinn almenna starfsmann þó ekki eiga að finna fyrir tilfærslunni.

„Við munum auðvitað skoða reksturinn, við munum líka skoða það hvort við getum ekki nýtt okkur eitthvað af því góða starfi sem þarna er unnið til að bæta hluti hjá heilbrigðisstofnuninni, þannig að við horfum á þetta sem samstarf bara í báðar áttir“ segir Jón Helgi.