Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íhuga að lögfesta hundagöngur

19.08.2020 - 23:53
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hundar þurfa að fá að minnsta kosti tvo göngutúra á dag, sem ekki vara skemur en í klukkutíma að samanlögðu. Þýsk yfirvöld íhuga nú að lögfesta þá lágmarkshreyfingu sem þýskum hundaeigendum ber að veita gæludýrum sínum.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu og segir einnig vera til skoðunar að banna að hundar verði bundnir úti löngum stundum. Þá eru einnig í vinnslu reglur sem taka eiga á svo nefndri verksmiðjuræktun (e. puppy farms) með því að banna ræktendum að vera með meira en þrjú got í gangi á sama tíma. Þeim ber einnig skylda til að láta hvolpa njóta samvista við menn í að minnsta kosti fjóra tíma á dag til að tryggja að þeir fái næga umhverfisþjálfun.

„Gæludýr eru ekki tuskudýr. Það þarf að taka þeirra þarfir með í reikninginn,“ hefur BBC eftir þýska landbúnaðarráðherranum, Juliu Klöckner um breytingarnar.

Auk þess að lögfesta lágmarksgöngutíma og  banna að hundar verði skildir lengi eftir einir úti, er einnig til skoðunar að banna að hundar séu skildir eftir einir heima allan daginn og segir ráðherrann breytingarnar byggja á ráðleggingum sérfræðinga um dýravelferð

Anna Sigríður Einarsdóttir