Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Forseti Malí lúffaði fyrir hernum til að forða blóðbaði

19.08.2020 - 06:48
Erlent · Afríka · Malí · Stjórnmál
epa08611365 Malians cheer as Mali military enter the streets of Bamako, Mali 18 August 2020. Local reports indicate Mali military have seized Mali President Ibrahim Boubakar Keïta in what appears to be a coup attempt.  EPA-EFE/MOUSSA KALAPO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirmenn í her Vestur-Afríkuríkisins Malí, sem leiddu valdarán hersins þar í landi í gær, lýstu því yfir í morgunsárið að þeir hyggist innleiða nauðsynlegar umbætur í stjórnmálum landsins og efna til þing- og forsetakosninga „innan skynsamlegs tímaramma." Forsetinn segist hafa sagt af sér til að forða þjóðinni frá blóðbaði.

Sveitir vopnaðra manna úr Malíher handtóku bæði Ibrahim Boubacar Keita, forseta Malí, og forsætisráðherrann í stjórn hans, Boubou Cisse, síðdegis í gær og þvinguðu forsetann til að segja af sér í beinni sjónvarpsútsendingu skömmu eftir miðnætti.  Um leið og hann tilkynnti afsögn sína sagði Keita að ríkisstjórnin myndi einnig láta af völdum og þingið leyst frá störfum án tafar.

„Fyrst  það þóknaðist ákveðnum öflum í hernum okkar að þetta ætti að enda með þeirra inngripi, átti ég þá nokkurt val?“ spurði forsetinn. „[Ég verð] að beygja mig undir þetta, því ég vil ekki blóðbað.“

Segjast axla ábyrgð frammi fyrir þjóð og sögu

Nokkru eftir ávarp Keitas ávarpaði einn af leiðtogum uppreisnarmanna landa sína á sama vettvangi, fyrir hönd þess sem hann kallaði Þjóðarnefnd um frelsun þjóðarinnar. Sú nefnd hafði ákveðið að „axla ábyrgð frammi fyrir þjóðinni og sögunni," sagði Ismael Wague, aðstoðarherráðsforingi í Malíska flughernum, þegar hann lýsti valdaráninu á hendur sér og Þjóðarnefndinni í ávarpi sínu. 

Mikil ólga að undanförnu - valdaránið fordæmt

Afríkubandalagið, Evrópusambandið og frönsk stjórnvöld fordæmdu valdaránstilraunina í gærkvöld. Það gerðu samtök Vestur-Afríkuríkja einnig, og boðuðu refsiaðgerðir. Mikil ólga hefur verið í Malí síðustu misseri vegna meintrar spillingar og óstjórnar í valdatíð Keitas og háværar raddir voru  uppi um umfangsmikil kosningasvik þegar hann var endurkjörinn 2018. Hefur afsagnar hans verið krafist um nokkurt skeið, en allra síðustu vikur hefur þó fækkað nokkuð í hópi mótmælenda.