Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flug Icelandair í sumar var arðbært, segir forstjóri

19.08.2020 - 07:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Staða Icelandair er sterkari en búist var við þegar hluthafafundur félagsins var haldinn 22. maí síðastliðinn og flugáætlun félagsins í sumar var arðbær. Þetta kemur fram í kynningargögnum fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair sem birt voru Kauphöll seint í gærkvöldi.

Þar kemur meðal annars fram að þeir langtímakjarasamningar, sem gerðir hafi verið við flugstéttir, muni auka sveigjanleika fyrirtækisins og styrkja samkeppnisstöðu þess. Þá hafi vöruflutningar og leiguflug gengið vel í sumar og tekist hafi að tryggja ábatasöm verkefni á þeim sviðum.

Í fyrradag tilkynntu stjórnendur Icelandair að hlutafjáruppboði félagsins hefði verið frestað og stefnt væri að því að það færi fram í næsta mánuði. Í gær var svo tilkynnt um að íslensk stjórnvöld myndu veita Icelandair ríkisábyrgð á lánalínu að upphæð allt að 120 miljónir dollara, um 16,5 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá Icelandair er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra að fjárhagsstaða félagsins hafi verið góð áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.  „Í kjölfar þeirra aðgerða sem við höfum gripið til og þeirra áætlana sem við höfum gert til framtíðar, hefur félagið alla burði til að koma sterkt út úr honum,“ er haft eftir Boga Nils í tilkynningunni.