Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Eyddu leifum af sprengjum í Hlíðarfjalli

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar eyddi í gær gömlum leifum af sprengjum sem fundust í Hlíðarfjalli í síðustu viku. Sögugrúskari sem fann sprengjubrotin segist ekki geta neitað því að hafa orðið dálítið smeykur við fundinn.

Brynjar Karl Óttarsson vinnur að hlaðvarpsþáttum um veru setuliðsins í Hlíðarfjalli og hefur skoðað svæðið vel undanfarin ár. Hann var á rölti um svokallaða Hrappsstaðaskál, norðan skíðasvæðisins í síðustu viku. Þá gekk hann fram á mikið magn af sprengjubrotum og taldi fulla ástæðu til að láta Landhelgisgæsluna vita

Sjá einnig: Kanna hvort ósprungnar sprengjur séu í Hlíðarfjalli

Hún var ekki lengi að svara kallinu og sprengjudeildin var mætt til að skoða svæðið betur í gær. „Ég var pínu smeykur, ég get ekki neitað því. Ég hef verið að finna eitt og annað í hlíðum fjallsins. En þetta er öðruvísi hér, brotin sem ég fann voru heillegri og erfitt að sjá hvort að það var stélið sem stóð upp úr jörðinni og mögulega sprengjan neðanjarðar“ segir Brynjar Karl um fundinn í síðustu viku. 

Töldu ástæðu til að eyða brotunum

Sprengjudeildin skoðaði svæðið vel þrátt fyrir leiðinda skyggni og þótt ekki væri talin hætta á ferðum sá hún ástæðu til að eyða þyrpingunni sem Brynjar Karl fann í síðustu viku. Þó svo það væru engar virkar sprengjur voru púðurleifar í hrúgunni. Sprengjuleifunum var eytt með sprengiefni í gærkvöldi og gekk að sögn sérfræðings vel.
 

Brynjar segir fullt tilefni til að fara varlega þegar farið er um fjöll og firnindi; „Setuliðið var við æfingar mjög víða og þeir voru að sprengja og það eru alveg dæmi um það að sprengjur hafi ekki sprungið eins og við vitum“. Ekki sé hægt að fullkanna svæðið svo það sé vissara að fara varlega.