Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Einkunnir í pólitísku fárviðri

19.08.2020 - 10:26
Mynd: EPA / EPA
Þegar breskir nemendur gátu ekki, vegna veirufaraldursins, tekið prófið, sem samsvarar íslenska stúdentsprófinu áttu kennaraeinkunnir að ráða. Á síðustu stundu var svo ákveðið að nota reikniformúla. Þegar heildardæmið var reiknað kom í ljós að um 40 prósent nemenda hafði fengið lægri einkunnir en kennaraeinkunnirnar. Þegar betur var að gáð, var lækkun ekki sérlega réttlát, fól í sér félagslega mismunun. Málið er orðið meiriháttar álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina.

Próf er best en annars reikniformúla

Gavin Williamson menntamálaráðherra lét engan bilbug á sér finna síðastliðinn fimmtudagsmorgun þegar hann kynnti svokallaðar A-level einkunnir, hliðstæðar íslenska stúdentsprófinu.

Í mars þegar var ljóst að það yrðu engin próf, vegna veirufaraldursins, þurfti að taka erfiðar ákvarðanir. Próf er alltaf það besta en í staðinn þurfti að finna kerfi sem væri sanngjarnt fyrir alla, sagði ráðherrann.

Ráðherrann vildi frekar fara í viðtal áður en einkunnirnar yrðu birtar

Reyndar athyglisvert að ráðherrann vildi fara í viðtalið áður en einkunnirnar voru birtar sama dag. Fréttamaðurinn tók það sérstaklega fram í viðtalinu. Síðdegis, þegar einkunnirnar höfðu verið birtar kom í ljós að kerfið var sannarlega ekki sanngjarnt fyrir alla: það lækkaði markvisst einkunnir krakka í ríkisskólum meðan nemendur í einkaskólum voru líklegri til að halda væntum einkunnum eða jafnvel vera hækkaðir.

Reikniformúla í stað kennaraeinkunna

Sagan er sú að það hefði vel verið hægt að halda próf í júní, hafa bil á milli eins og er alltaf í prófum. Það var ekki gert en skólar beðnir um að senda inn einkunnir, sem byggðu á frammistöðu og vinnu nemenda. En stofnunin, sem sér um að ganga frá einkunnum, Office of Qualifications and Examinations Regulation, eða Offqual, tók á endanum ekkert tillit til kennaraeinkunna.

Önnur áhrif formúlunnar á nemendur ríkisskóla en einkaskóla

Þess í stað voru einkunnirnar reiknaðar samkvæmt formúlu sem byggði á einkunnamynstri fyrri ári en ekki frammistöðu nemendanna, sem voru að fá einkunnirnar. Einkaskólar eru líklegri til að hafa litla bekki. Formúlan breytti ekki einkunnum lítilla hópa, hygldi því í raun einkaskólum. Ríkisskólar, þar sem nemendur í ár höfðu staðið sig mun betur en fyrri árgangar, fengu samt einkunnir með sömu dreyfingu og áður, án tillits til frammistöðu nú og kennaraeinkunna. Og svo mætti lengi telja.

Óvæntar einkunnir, glatað háskólapláss

Breskir fjölmiðlar eru fullir af viðtölum við nemendur, sem lögðu hart að sér, áttu von á kennaraeinkunnum í samræmi við það og þá að komast í góða háskóla. Formúlan gaf lægri einkunn og þar með lauk draumnum um háskólavistina. Í heild voru 40 prósent einkunna lægri en kennaraeinkunnir.

Skotland slauffaði formúlueinkunnunum eins og skot

Í Skotlandi voru þessar einkunnir reiknaðar út með sama hætti og birtar fyrr en í Englandi. Þar liðu ekki nema nokkrar klukkustundir áður en kennsluráðherrann hafði beðist afsökunar og lýst yfir að kennaraeinkunnir yrðu látnar gilda þegar þær væru hærri en formúlueinkunnirnar.

Williamson vildi ekki gera eins og Skotar

Á laugardaginn lýsti Williamson skólaráðherra yfir að nei, breska stjórnin ætlaði ekki að fylgja skoska fordæminu, ekkert að láta einhverjar óánægjuraddir hafa áhrif á sig. Krökkum væri enginn greiði gerður með of háum einkunnum – án þess að ráðherrann útskýrði hvaða greiði fælist í of lágum einkunnum. Líka að hann hefði ekki áttað sig á þessu fyrr en eftir á, sem stangast þó á við annan vitnisburð um hvernig einkunnagjöfin gekk fyrir sig.

Hræmulegar fyrirsagnir – og þá kom U-beygjan og afsökunarbeiðni

Forsagnir blaðanna í dag eru hræmulegar bæði fyrir Williamson og ríkisstjórnina. Í Daily Mail, sem er annars hliðhollt stjórninni, er Williamson og Boris Johnson forsætisráðherra líkt við litla og stóru í gömlu amerísku grínmyndunum með Laurel og Hardy. Í dag var svo runninn upp tími U-beygjunnar og afsakana. Já, ráðherrann bað nemendur, sem hefðu orðið fyrir þessu, innilega afsökunar. Nú verða kennaraeinkunnir látnar gilda þar sem þær eru hærri en formúlueinkunnirnar.

Vandræðaganginum alls ekki lokið

Vandræðaganginum er þó ekki lokið heldur þurfa nú háskólarnir að spá í hvernig þeir taki á breyttum einkunnum. Og einkunnasögunni er ekki lokið: á fimmtudag á að birta einkunnir prófa, sem breskir nemendur taka sextán ára, þegar skólaskyldunni líkur. Þær einkunnir ákvarða vegferðina á framhaldsskólastiginu og já, þær voru líka reiknaðar með formúlu.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir