Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

30 milljarðar undir í samningum við Boeing

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Icelandair gerir ráð fyrir að fjárskuldbindingar félagsins lækki um rúmlega 30 milljarða króna vegna samkomulags við Boeing flugvélaframleiðandann. Nýundirritaðir kjarasamningar spara félaginu þrjá og hálfan milljarð.

Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem Icelandair birti á vef Kauphallarinnar í gærkvöldi og er gefin út í tengslum við fyrirhugað hlutafjárútboð. Kynningunni er ætlað að vekja áhuga fjárfesta á félaginu.

Flug í fyrra horf árið 2024

Fram hefur komið að íslenska ríkið veiti félaginu lánalínu með 90 prósent ríkisábyrgð upp á allt að 120 milljónir dollara, eða 16,5 milljarða króna. Íslandsbanki og Landsbankinn munu sjá um fjármögnunina.

Í kynningunni er gert ráð fyrir að flug verði í lágmarki fram á mitt næsta ár vegna kórónuveirufaraldursins. Þá muni fjöldi farþega fara vaxandi en það verði ekki fyrr en árið 2024 sem farþegafjöldinn verði kominn á sama stað og hann var fyrir Covid.

Gera ráð fyrir MAX-vélunum í árslok

Nýjar MAX flugvélar skipa stóran sess í framtíðaráætlunum félagsins þótt þær hafa verið kyrrsettar síðan í mars í fyrra. Félagið gerir ráð fyrir að þær byrji að fljúga á ný í lok árs en alls hafði Icelandair pantað 16 slíkar vélar. Þegar höfðu sex flugvélar verið afhentar en félagið gerir ráð fyrir að falla frá pöntunum á fjórum vélum. Þá gerir félagið kröfu um bætur vegna kyrrsetningarinnar og er samkomulag við Boeing sagt minnka framtíðar skuldbindingar Icelandair um 260 milljónir dollara, ríflega 30 milljarða króna.

Eins eru nýundirritaðir kjarasamningar við flugmenn sagðir spara um 17 milljónir dollara á venjulegu rekstrarári og samningar við flugfreyjur 9 milljónir dollara.

Samningar við kröfuhafa, svo sem frestanir á afborgunum höfuðstóls lána, eru metnir á 103 milljónir dollara. Gengið er út frá því að Icelandair byrji að skila hagnaði á ný árið 2022.