Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Útlendingastofnun afturkallar brottvísanir í 61 máli

18.08.2020 - 07:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útlendingastofnun hefur ákveðið að afturkalla ákvarðanir um brottvísun í 61 máli í ljósi kórónuveirufaraldursins sem hefur haft mikil áhrif á málefni umsækjenda. Alls 124 umsóknir um alþjóðlega vernd skulu fá efnislega meðferð.

Einhver málanna höfuð þegar verið afgreidd með vernd í öðrum ríkjum á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. 

Af þeim 124 umsóknum hafa 35 þegar verið afgreiddar efnislega. Átta fengu dvalarleyfi af mannúðarástæðum, 24 var veitt vernd eða viðbótarvernd og þremur var synjað um landvistarleyfi. 

Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir í samtali við blaðið að í þeim málum sem um ræðir séu viðkomandi enn á landinu en misjafnt sé hvort ákvörðunin hafi verið komin í ferli hjá kærunefnd útlendingamála. 

Fjöldi ríkja lokaði fyrir endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í ljósi ástandsins aðlagaði Útlendingastofnun mat sitt á því hvaða mál fá efnislega meðferð tímabundið.

Eftir að flugsamgöngur jukust aftur í júní bárust alls 116 umsóknir í júlí.