Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þórdís Kolbrún vill ekki afhenda kvittanir

18.08.2020 - 21:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, neitar að afhenda afrit af reikningum fyrir þjónustu í heilsulind á Hilton Nordica, sem heyrir undir Icelandair hotels, síðasta laugardag. Fréttastofa óskaði eftir því við ráðherrann fyrr í dag að hún afhenti afrit af reikningum í ljósi þess að vinkvennahópur hennar naut sérstakra fríðinda hjá hótelinu. Í svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að ráðherrann hafi greitt uppsett verð.

Í siðareglum Alþingismanna er meðal annars kveðið á um að ráðherra þiggi að jafnaði ekki boðsferðir af einkaaðilum nema opinberar embættisskyldur séu hluti af dagskrá ferðarinnar. Þá segir einnig að ráðherra skuli forðast allt athæfi sem líklegt er til að vekja grunsemdir um að hann notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni. 

Samstarf við Icelandair hotels

Á margrómaðri vinkvennasamkundu Þórdísar á laugardaginn síðastliðinn birti Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, fjölmiðlakona, áhrifavaldur og matarbloggari og vinkona Þórdísar, myndir merktar „Samstarf @Icelandairhotels“ til að sýna að hópurinn hafi notið fríðinda.

Eva Laufey sagði í samtali við Stundina í gær að hún sendi Icelandair reikning fyrir sinni vinnu og fengi reikning á móti. Þetta væri „viðskiptadíll“. 

Mynd með færslu
 Mynd: Instagram
Myndin var birt á Instagram

Í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að ráðherrann afhendi ekki rekninga, enda sé ekki hægt „að ætlast til þess að persónuleg útgjöld séu opinber gögn“. Þá kemur fram að undir upplýsingalög heyri einungis gögn sem varða stjórnsýslu og starfsemi ráðuneytisins. Persónuleg fjármál ráðherra heyri ekki undir starfsemi eða stjórnsýslu ráðuneytisins.  

Fréttastofa ítrekaði þá beiðni um afrit af reikningum á þeim grundvelli að reikningarnir myndu styðja frásögn ráðherra um að hún hefði greitt fyrir þjónustuna.

„Ég greiddi uppsett verð fyrir allt“

Í svarinu segir að Þórdís Kolbrún hafi greitt fyrir mat, drykk og aðgang að heitum pottum síðustu helgi á heilsulind Hilton Nordica. Vinkvennahópnum hafi boðist ókeypis aðgangur að heilsulind Hilton Nordica og gisting á hótelinu. Ráðherrann hafi ekki gist og hún gert hópnum ljóst að hún myndi borga allan sinn kostnað og gert það.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Myndin var birt á Instagram

„Ég bað ekki um nein sérkjör, hvorki þarna né annars staðar, og greiddi uppsett verð fyrir allt,“ segir í yfirlýsingu frá ráðherra sem fylgir svarinu.

Ekki brot á siðareglum  

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að ráðherrann hafi óskað eftir áliti frá skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu á því hvort í þessu fælist brot á siðareglum ráðherra. Í álitinu segir:

Eins og mál þetta er vaxið liggur ekkert fyrir sem bendir til þess að ráðherra hafi þegið slíkar gjafir, boðsferðir eða afslætti frá Icelandair Hotels eða öðrum umrætt sinn. Ráðherra naut þannig hvorki persónulegra fríðinda í krafti embættis síns né vegna umrædds samstarfs. Þá getur ráðherra ekki borið ábyrgð á því að aðrir gestir samsætisins hafi þegið slík fríðindi gegn því að birta kynningarefni á samfélagsmiðli. Loks skiptir hér máli að myndir af ráðherra sjálfri voru ekki merktar sem auglýsing eða samstarf, heldur er um að ræða aðrar myndir sem teknar voru sama dag. Miðað við þær forsendur sem hér er gengið út frá má því ætla að ekki sé um brot á siðareglum ráðherra eða öðrum reglum að ræða.

Í lokin áréttar ráðherrann að ráðherrar eigi að haga gerðum sínum þannig að þær séu hafnar yfir vafa. „Ég gerði það ekki, biðst afsökunar á því og mun læra af því,“ segir Þórdís Kolbrún í yfirlýsingunni.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV