Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefnir í að Ísrael og Súdan friðmælist

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Súdan og Ísrael virðast vera að stíga skref í átt til friðar. Talsmaður utanríkisráðuneytis Súdan sagðist ekki geta neitað að friðarviðræður væru í farvatninu.

Talsmaðurinn sagði sömuleiðis í samtali við Sky News Arabia að engin rök væru lengur fyrir fjandskap ríkjanna.

Eftir að friðarsamkomulag Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna var undirritað í síðustu viku greindu ísraelskir fjölmiðlar frá því að samningar við Bahrein, Óman og jafnvel Súdan væru framundan.

Formælandi súdanska utanríkisráðuneytisins sagði að samkomulag Ísraels og furstadæmanna væri jákvætt skref í átt til friðar í Mið-Austurlöndum. Og ekki nóg með það, friður milli Ísraels og Arabaríkja ýtti undir líkurnar á heimsfriði.

Tæknilega eiga Súdan og Ísrael enn í stríði. Abdel Fattah al-Burhan núverandi leiðtogi Súdan og Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels ræddu saman í febrúar.

Útlit var fyrir að viðræðurnar byndu enda á viðskiptabann Súdans á Ísrael. Eins var fullyrt að leiðtogar ríkjanna hefðu ákveðið að færa samskipti ríkjanna í eðlilegt horf. Ríkisstjórn Súdans þvertók síðar fyrir þá ákvörðun.