Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Eitthvað mannfjandsamlegt“ við auglýsingaherferð SA 

18.08.2020 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Það er eitthvað einstaklega mannfjandsamlegt við það að Samtök atvinnulífsins séu beinlínis í herferð gegn hækkun atvinnuleysisbóta,“ skrifar Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands í færslu á Facebook í dag. Þar vísar hún í kostaðar auglýsingar Samtaka atvinnulífsins á Facebook og Instagram þar sem því er haldið fram að hækkun atvinnuleysisbóta vinni gegn fjölgun starfa. Drífa segist efast um að fyrirtækin í Samtökum atvinnulífsins styðji auglýsingarnar. 

Í auglýsingunum lýsa Samtök atvinnulífsins yfir áhyggjum af því að ef atvinnuleysisbætur yrðu hækkaðar þyrfti atvinnulífið að greiða hærri álögur. Það gæti leitt til stöðnunar í hagkerfinu og skert getu ríkisins til að standa undir velferðarsamfélaginu til lengdar. Í grein sem auglýsingarnar byggja á er því meðal annars haldið fram að hærri bætur dragi úr hvata fólks til að leita að vinnu og geti þannig aukið atvinnuleysi. 

Drífa segir nálgun SA niðurlægjandi og ómannúðlega 

„Þetta er mjög niðurlægjandi og ómannúðleg nálgun. Þetta er ekki sú nálgun sem við byggjum okkar velferðarkerfi á,“ segir Drífa í samtali við fréttastofu. Hún segir nálgun SA ganga út frá því „að það þurfi að svelta fólk til að það fari í vinnu.“ 

„Ég vil ekki nálgast málið þannig að fólk þurfi að vera á vonarvöl til þess að fást til þess að vinna,“ segir hún. „Fólk vill gjarnan vinna. Fólk vill sjá fyrir sér.“ bætir hún við.  

Efast um að fyrirtækin í SA séu sammála talsmönnum þeirra 

Drífa segir að samtökin verði að svara fyrir það af hverju þau hafi ákveðið að fara í herferð gegn hækkun atvinnuleyissbóta núna. „Það kæmi mér mjög á óvart að fyrirtækin í Samtökum atvinnulífsins séu sátt við þessa herferð,“ segir hún.  

„Atvinnuleysisbótakerfið okkar er þannig að það á að grípa fólk þegar í harðbakkann slær. Það er svona grunnhugmyndin. Svo fólk sé ekki á vonarvöl þó það missi vinnuna.“ 

Drífa segir að á tímum sem þessum sé „eins gott að kerfið standi undir því að bjarga fólki frá fátækt þannig að fólk geti staðið við sitt. Fólk hafi möguleika á því að kaupa sér í matinn og versla við þau fyrirtæki sem standa að Samtökum atvinnulífsins.“ 

Vill hækka atvinnuleysisbætur og endurskoða tekjutengingar 

„Það mannúðlega í okkar samfélagi að gera er að grípa fólk þegar það verður fyrir atvinnuleysi. Jafnhliða því þarf svo að fara í vinnumarkaðsúrræði til að styrkja fólk í atvinnuleit, styrkja það á vinnumarkaði, styrkja hæfni og færni,“ segir Drífa.  

Þá segir hún mikilvægt að styðja við atvinnulausa. „Það þarf bæði að hækka atvinnuleysisbætur og síðan skoða mjög vandlega hvernig tekjutengingarnar eru þannig að fólk njóti tekjutengingar atvinnuleysisbóta lengur og betur en það hefur gert hingað til til þess að það eigi einhvern möguleika á því að standa við sínar skuldbindingar. Það er samfélaginu öllu til góða,“ segir Drífa að lokum.