Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Eini fyrirvarinn að útboðið gangi eftir

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, segir það hafa verið orðið tímabært fyrir stjórnvöld að taka ákvörðun um að gangast í ríkisábyrgð fyrir Icelandair. Hann segir góða samstöðu hafa verið í ríkisstjórninni um að veita ábyrgðina.

Tilkynnt var í hádeginu í dag að íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið að veita Icelandair ríkisábyrgð á lánalínu að upphæð allt að 120 milljónir dollara, eða um 16,5 milljarðar króna

Bjarni segir að það hafi verið komið að því að taka ákvörðun. „Við settum fram ákveðin skilyrði fyrir því að geta svarað spurningunni um mögulega ríkisábyrgð og þau snéru einkum að fjárhagslegri endurskipulagningu sem félagið er búið að ljúka og nú stendur það í raun eitt eftir, eins og við lítum á það, að láta reyna á hlutafjárútboðið sem er þá eins og síðasta skilyrðið.“

Snýst um að lágmarka áhættuna

Ákvörðunin kemur degi eftir að Icelandair tilkynnti að fyrirtækið þurfi 23 milljarða hlutafjáraukningu, ekki 29 milljarða eins og það hafði sagt áður.

Bjarni segir ekki vera samhengi á milli þeirrar tilkynningar og ákvörðunar stjórnvalda í dag. „Við höfum verið að fylgjast mjög náið með framvindunni og auðvitað hefur margt gerst frá því hluthafafundur þeirra fór fram þar sem menn opnuðu á möguleikann á hærri hlutafjársöfnun.“ Það sé hins vegar bara ánægjulegt ef félagið metur það svo að 23 milljarðar dugi.

Vinna stjórnvalda hafi snúist um að lágmarka áhættuna á að reyna þurfi á ríkisábyrgðina, ekki að reyna að minnka fjárhæðina sem gengist er í ábyrgð fyrir

„Að mati okkar sérfræðinga þá eru þeir með trúverðuga áætlun núna, að því gefnu að hlutafé safnist,“ segir Bjarni og kveður eina fyrirvarann sem ríkið geri við ábyrgðina vera að útboðið gangi eftir.

Ábyrgðin er líka háð samþykki Alþingis og gerir ráðherra ráð fyrir að hún verði lögð fyrir þingið á næstu vikum.

Segir ríkið síðast inn og fyrst út

Haft var eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair fyrr í mánuðinum að forsendan fyrir lánalínu stjórnvalda væri sú að útboðið klárist. Þetta þurfi þó allt þurfa að vinnast saman þar sem fjárfestar þurfa einnig að vita hvernig lánalínan lítur út.

Bjarni tekur í sama streng og segir þetta allt hanga saman. „Við ríkið erum síðust inn því það þurfa allir aðrir þættir að hafa verið kláraðir áður en við göngum formlega frá okkar. Á ákveðin hátt erum við líka fyrst út, það er að segja ef að áætlanir ganga eftir, því þá verður þetta það úrræði sem fyrst fellur úr gildi og verður gert upp.“