Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allt fram streymir

Mynd með færslu
 Mynd: Elín Hall

Allt fram streymir

21.08.2020 - 10:56

Höfundar

Með öðrum orðum er fyrsta sólóplata Elínar Hall. Platan rennur óheft áfram, stundum eins og í skyssuformi, nálgun sem gefur henni athyglisverða og nokk heillandi áferð. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Elín Hall er vel kunnug listgyðjunni, hefur sungið í Söngvakeppni sjónvarpsins, er meðlimur í hljómsveitinni Náttsól og lék aðalhlutverk í kvikmyndinni Lof mér að falla. Á Með öðrum orðum stígur hún hins vegar fram sem einskonar söngvaskáld, semur alla texta og lög auk þess að útsetja þau. Þeir Jóhann Rúnar og Bjarni Þór úr Stúdíó Dallas lögðu gjörva hönd á plóg upptökulega, Reynir Snær sá um aðstoð við útsetningu og gítarleik, Snorri Örn lék á bassa, Svanhildur Lóa á slagverk en Magnús Jóhann lék á hljómborð og píanó.

Mannskapur

Þrátt fyrir þennan mannskap er þetta mikil SÓLÓPLATA, rödd og gítarleikur Elínar Hall er að mestu í öndvegi, önnur hlljóðfæri eru meira styðjandi. Stemningin á plötunni er sérstök, hún er mjög innileg og varfærin og sum lögin bærast varla, svo strípuð eru þau. Það skýrir margt að vita að platan er unnin upp úr dagbókarfærslum Elínar frá framhaldsskólaárum hennar. Þetta er nefnilega alger svefnherbergisplata, maður sér Elínu fyrir sér á rúmstokknum, glamrandi á gítar og syngjandi hráar pælingar um lífið, tilveruna og ástina (já, það er alltaf þessi fáránlega, skrítna og óskiljanlega ást á þessum árum).

Þessi nálgun kallar á visst hugrekki sem Elín virðist búa yfir í heilnæmu magni. Sum lögin eru meira eins og ókláraðar skyssur, söngröddinnn er leyft að sveiflast til og frá, líkt og Elín sé að ákveða áherslurnar á staðnum og hún muldrar stundum og tafsar, orðin ógreinileg. Stundum kemur fyrri tíma Michael Stipe í hugann, og svona verk hafa fylgt tónlistarsögunni lengi (Pink Moon með Nick Drake, MTV Unplugged No. 2.0 með Lauryn Hill). Flutningur í ákveðnu hugflæði, orðin straumur lausbundinna hugrenningartengsla. Lögin eru reyndar mismikið unnin, stundum heyrir maður vel í hljómsveitinni, en þetta er svona myndin sem maður fær af plötunni er maður stendur upp. Ung tónlistarkona, hellandi úr hjartanu án þess að ofhugsa eða hika.

Látið vaða

Ég hrósa Elínu innilega fyrir að láta vaða og gefa út, ekki bíða eftir því að hlutirnir verði „nógu góðir“. Eðli málsins samkvæmt felur svona nálgun það í sér að misjafnlega tekst til, sum laganna dálítið hálfköruð á meðan önnur eru lengra komin ef svo má segja. En heilt yfir tekst þetta vel. Dagbókin opnuð upp á gátt, þar sem er að finna eins og við þekkjum, fullmótaðar færslur í bland við krass og skyssur.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Litróf skugganna

Popptónlist

Næturstemmur úr Norðfirði

Popptónlist

Á milli heims og helju

Popptónlist

Glúrið tilraunapopp