Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tæknirisinn Google verst ástralskri löggjöf

17.08.2020 - 09:46
FILE - This Friday, June 16, 2017, file photo shows the Google logo at a gadgets show in Paris. Google said it has achieved a breakthrough in quantum computing research, saying its quantum processor has completed a calculation in just a few minutes that would take a traditional supercomputer thousands of years to finish. (AP Photo/Thibault Camus, File)
 Mynd: AP
Tæknirisinn Google hefur snúist til varnar gegn áætlun ástralskra stjórnvalda sem gerir þess háttar stafrænum risum skylt að greiða fyrir dreifingu frétta. Reglurnar ná einnig til Facebook en síðar verður smærri stafrænum fyrirtækjum gert að hlíta sams konar reglum.

Risafyrirtæki á borð við Google og Facebook áttu í árangurslausum samningaviðræðum við stjórnvöld í Ástralíu um 18 mánaða skeið. Niðurstaðan varð sú að þau skyldu greiða fréttaveitum fyrir það efni sem birtist á miðlunum.

Fyrirtækin gætu staðið frammi fyrir milljóna sektum láti þau ekki undan. Stjórnendur Google hafa brugðist við og hyggjast gera sitt til að komast hjá því að fara að hinum nýju reglum.

Tugir ástralskra dagblaða hafa lagt upp laupana eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og hundruð starfsmanna þeirra hafa misst vinnuna.

Yfirvöld saka tæknirisann um að dreifa villandi upplýsingum með því að segja að ógn steðjaði að hefðbundinni Google-notkun Ástrala. Sömuleiðis að þegar fengju þarlendar fréttaveitur háar greiðslur og milljarða heimsókna gegnum þjónustu fyrirtækisins.

Talsmenn fyrirtækisins fullyrða að hætta gæti steðjað að þeirri endurgjaldslausu þjónustu vegna nýju reglnanna. Voldugum fjölmiðlafyrirtækjum yrði hins vegar gert mögulegt að krefjast óraunhæfra fjárgreiðslna.

Talsmenn ástralskra neytenda hafa fagnað löggjöfinni með þeim rökum að nú verði fréttamiðlum landsins gert mögulegt að greiða fréttamönnum fyrir vinnu sína. Löggjafarsamkundur víða um heim horfa nú til þessarar ákvörðunar Ástrala enda hefur fjölmiðlanotkun almennings breyst með tilkomu tæknirisanna.

Þau hafa til að mynda náð að sölsa í æ ríkari mæli undir sig auglýsingatekjur á veraldarvefnum.