Strandveiðarnar að stöðvast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Strandveiðar eru að stöðvast, tæplega tveimur vikum áður en tímabilið er á enda. Aflaheimildir duga ekki til að ljúka vertíðinni og á sjöunda hundrað smábátum verður lagt um miðja vikuna að óbreyttu.

Strandveiðitíminn er frá fyrsta maí til ágústloka. Tæplega 680 bátar hafa leyfi til veiða í ár, um 50 fleiri bátar en í fyrra. Ekki má stunda aðrar veiðar á bátum með gilt strandveiðileyfi.

Viðbótin að verða búin

Við upphaf tímabilsins lá fyrir að veiða mætti 11.100 tonn, þar af 10.000 tonn af þorski. Um miðjan júlí var ljóst að þær veiðiheimildir sem ætlaðar voru til strandveiða þetta tímabil myndu ekki duga. 20. júlí bætti sjávarútvegsráðherra við 720 tonnum af þorski og sá kvóti er að verða búinn.

,,Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir okkur"

Það er þungt hljóð í sjómönnum sem reikna með að geta veitt í einn til tvo daga í viðbót. ,,Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir okkur. Núna erum við í verðmætum fiski sem að skiptir svo miklu máli fyrir afkomu þessarra báta," segir Árni Björn Kristbjörnsson, strandveiðisjómaður á Húsavík.

Fiskurinn verðmætastur á þessum tíma

Og hann telur þetta verst fyrir sjómenn á Norðaustur- og Austurlandi. Þar er fiskgengdin best í ágúst og fiskurinn verðmætastur. ,,Þegar við erum að veiða þetta í maí þá er þetta verðlítið. Þannig að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þá báta sem þar eru og sennilega mestu þar."

Býst enn við að ráðherra auki veiðiheimildir

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segist enn búast við að ráðherra auki veiðiheimildir til strandveiða svo hægt verði að klára ágústmánuð, einkum með tilliti til þess að heildarþorskveiði í ár sé átta þúsund tonnum minni en á sama tíma í fyrra. Sjávarútvegsráðherra segist búinn að ráðstafa öllum mögulegum aflaheimildum til strandveiða.

Hefði átt að leggja upp með meiri heimildir

,,Það átti náttúrulega alltaf að leggja upp með meiri aflaheimildir. Því það hefur verið bætt við kvótann undanfarin ár, en það hefur aldrei verið bætt við þetta kerfi," segir Árni Björn.
,,Kemur það sé illa fyrir marga að þurfa að hætta svona snögglega?" 
,,Já, þetta eru töluvert verðmætir túrar fyrir marga og sérstaklega hugsa ég þar sem menn hafa verið óheppnir með veður."

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi