
Lukashenko segist reiðubúinn að minnka eigin völd
Reuters fréttaveitan segir Lukashenko vonast með þessu til að lægja mótmælaölduna sem varað hefur yfir frá því tilkynnt var um úrslit kosninganna fyrir rúmri viku. Samkvæmt opinberum tölum sigraði Lukashenko með 80% atkvæða, en margir telja Svetlönu Tsikhanouskaya réttmætan sigurvegara kosninganna.
Ófremdarástand hefur ríkt frá því úrslitin lágu fyrir og hafa þúsundir mótmælenda hafa verið handteknir, hundruð hafa slasast og að minnsta kosti tveir hafa látið lífið.
Orð sín lét Lukahsenko falla á fundi með verkamönnum í einni af ríkisreknu verksmiðjum landsins. Þar mátti forsetinn þola framíköll og kröfur um að hann léti af embætti, en starfsfólk verksmiðjanna hefur lengi vel tilheyrt hans helsta stuðningsmannakjarna.
„Við erum búin að kjósa,“ sagði Lukahsenko. „Það verða ekki nýjar kosningar fyrr en þið eruð búin að drepa mig.“
Forsetinn bauðst þó til að gera breytingar á stjórnarskrá landsins sem feli í sér að forsetinn missi stjórnarskrárbundið vald sitt. „Það geri ég þó ekki undir þrýstingi, eða vegna þess sem er að gerast á götunum,“ sagði hann.
Reuters segir boð forsetans þó ólíklegt til að draga úr mótmælaöldunni þar sem hann hafi lagt fram sambærilegt boð áður.
„Þið vitið að ég er enginn dýrlingur. Þið þekkið harðari hliðna á mér, en ef þið steypið af stóli fyrsta forseta landsins þá dragi þið með ykkur öll nágrannaríkin,“ sagði Lukahsenko og bætti við að þjóðin gæti boðað til bæði þing- og forsetakosninga að loknum stjórnarskrárbreytingum ef hún vildi.
Tsikhanouskaya sendi stuðningsmönnum sínum ávarp frá Litháen. Kvaðst hún vera reiðubúin að taka við sem forseti landsins og hvatti lögreglumenn og liðsmenn öryggissveita til að láta af stuðningi við Lukashenko.
Auk mótmælanna heima fyrir segir Reuters Lukashenko nú einnig standa frammi fyrir hótunum Evrópusambandsins um refsiaðgerðir vegna þeirra hörku sem öryggisveitir og lögregla hafa beitt mótmælendur.
Þá hafa leiðtogar Evrópusambandsins fundað í dag um hvernig megi hindra möguleg afskipti rússneskra yfirvalda af mótmælunum, eftir að Lukashenko greindi frá því í gær að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi sagst vera reiðubúin að veita honum hernaðaraðstoð vegna utanaðkomandi ógnar.