Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hitamet í Dauðadalnum í Kalíforníu

17.08.2020 - 15:55
epa08608769 (FILE) - Tourists look at the Artist's Palette showing different colors due to various mineral deposits in Death Valley, near Furnace Creek, California, USA, 02 June 2019 (reissued 17 August 2020). The US National Weather Service is currently verifying a potential world heat record after 54,4 degrees Celsius were measured in Furnace Creek in Death Valley.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Aldrei hefur mælst hærri lofthiti á jörðinni en þær 54,4 gráður sem hitamælar þjóðgarðsins í Dauðadal í Kalíforníu greindu í gær, sunnudag. Mjög hátt hitastig í langan tíma getur valdið hættu fyrir mannfólk og umhverfi.

Enn á veðurfræðistofnun Bandaríkjanna eftir að staðfesta hitametið sem féll þar sem heitir Furnace Creek eða Ketillækur.

Hitabylgja gengur nú yfir vesturströnd Bandaríkjanna og búist er við að enn eigi eftir að hlýna á þeim slóðum. Verði metið vottað fellur sjö ára met, sem var 54 gráður, einnig í Dauðadalnum.

Fyrir einni öld síðan á hitinn þar að hafa mælst 56,6 gráður en það met er dregið í efa af veðurfræðingum nútímans, líkt og aðrar háar hitatölur þess sumars.

Árið 1931 var skráður 55 stiga hiti í Túnis en Christopher Burt veðursagnfræðingur segir þá mælingu dregna í efa líkt og fleiri á nýlendutímanum í Afríku.

Að sögn heilbrigðisyfirvalda vestra hafa ofsa-hitabylgjur orðið fleirum að bana en nokkuð annað veðurfyrirbrigði. Það telst vera ofsa-hitabylgja þegar hiti helst yfir 32 gráðum í þrjá daga eða meira. Við slíkar aðstæður eykst álag á raflínur sem veldur rafmagnsleysi, flugsamgöngur geta stöðvast, malbik bráðnar og innanrými farartækja hitnar svo mjög að skaða veldur.

Mannslíkaminn getur orðið fyrir svokallaðri hita-áraun sem getur valdið því að líffæri stöðvast. Það á einkum við þegar raki er mikill og fólk hættir að svitna. Landbúnaður getur sömuleiðis orðið illa úti, bæði vegna þess að gróður visnar og deyr og eins vegna þess að hitinn getur aukið útbreiðslu plöntusjúkdóma af ýmsu tagi.

Hitastækjan á Vesturströnd Bandaríkjanna nú hefur valdið ýmsum vanda, þar á meðal bilun í orkuveri sem olli tveggja daga rafmagnsleysi í Kalíforníu-ríki. Veðurfræðingar búast við að kólna taki á vesturströndinni næstkomandi miðvikudag.