Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjarni: Hegðun ferðamálaráðherra „óheppileg“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að hegðun iðnaðar- og ferðamálaráðherra á laugardag hafi verið óheppileg. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem er varaformaður flokksins, fór með vinkonum sínum út að borða og í búðir á Laugaveginum.

Þórdís sagði á facebook í gær að þetta hafi verið langþráður frídagur með æskuvinkonum. Það sé rangt að þær hafi farið út á lífið.

Myndir sem birtust af Þórdísi ásamt vinkonuhópnum á samfélagsmiðlum, þar sem þær sátu þétt saman, vöktu athygli í ljósi þess að yfirvöld hafa biðlað til fólks um að fara varlega í skemmtanahald þar sem of mörg smit mætti rekja til þess, sérstaklega þar sem áfengi er haft um hönd.

„Ég held að ráðherrann hafi svarað fyrir þetta að það hefði verið óheppilegt að það það væri vafi um það hvort öllum reglum hafi verið fylgt,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Persónulega finnst mér þetta á sama tíma draga fram að það er dálítið vandratað einstigi fyrir okkur öll að umgangast hvert annað, vini, eiga samskipti við annað fólk jafnvel á stöðum sem hafa opið og eru að fylgja reglum.“

En þurfa ráðherrar ekki að sýna meiri ábyrgð? „Jú eg held að þetta hafi verið óheppilegt og ráðherrann hafi gengist við því.“

Þórdís sagði í gær að einfaldara hefði verið að ákveða að vera ekki með vinkonuhópnum, en þær hafi þó fylgt settum reglum. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV