Á fimmtudag komust Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin að friðarsamkomulagi. Stjórnvöld beggja ríkja og Bandaríkjanna hafa gert mikið úr samkomulaginu og sagt það sögulegt. Þá segja leiðtogar ríkjanna að samkomulagið glæði vonir um að friðvænlegra verði í Mið-Austurlöndum. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Mið-Austurlandafræðum, er ekki sammála því. „Mér finnst þetta hafa eiginlega enga þýðingu. Ísraelar eru ekki að skuldbinda sig að gera eitt eða neitt.“
Eru ekki í neinu stríði
Þá segir hann að tímasetningin sé mjög einkennileg. „Vegna þess að Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin eru ekki í stríði - og eru í mjög nánum samskiptum bak við tjöldin. Þannig að þetta kannski setur bara þau samksipti upp á yfirborðið. En þetta hefur ekkert með Palestínumenn að gera, þetta kemur ekki til með að leiða til friðar þannig ég myndi ekki segja að þetta sé sögulegt samkomulag.“
Magnús Þorkell segir samkomulagið aðallega gert til þess að bæta ímynd leiðtoganna. „Með þessu þá geta Ísraelar sagt; við erum að gera eitthvað og við erum að stuðla að friði. Og þetta á líka við Donald Trump, til þess að bæta hans gengi í kosningunum.“