Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Friðarsamkomulagið hvorki þýðingarmikið né sögulegt

Mynd: RÚV / RÚV
Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Mið-Austurlandafræðum, segir að friðarsamkomulag Ísrels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna komi ekki til með að leiða til friðar. Samkomulagið sé ekki sögulegt og hafi litla þýðingu.

Á fimmtudag komust Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin að friðarsamkomulagi. Stjórnvöld beggja ríkja og Bandaríkjanna hafa gert mikið úr samkomulaginu og sagt það sögulegt. Þá segja leiðtogar ríkjanna að samkomulagið glæði vonir um að friðvænlegra verði í Mið-Austurlöndum. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Mið-Austurlandafræðum, er ekki sammála því. „Mér finnst þetta hafa eiginlega enga þýðingu. Ísraelar eru ekki að skuldbinda sig að gera eitt eða neitt.“

Eru ekki í neinu stríði

Þá segir hann að tímasetningin sé mjög einkennileg. „Vegna þess að Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin eru ekki í stríði - og eru í mjög nánum samskiptum bak við tjöldin. Þannig að þetta kannski setur bara þau samksipti upp á yfirborðið. En þetta hefur ekkert með Palestínumenn að gera, þetta kemur ekki til með að leiða til friðar þannig ég myndi ekki segja að þetta sé sögulegt samkomulag.“

Magnús Þorkell segir samkomulagið aðallega gert til þess að bæta ímynd leiðtoganna. „Með þessu þá geta Ísraelar sagt; við erum að gera eitthvað og við erum að stuðla að friði. Og þetta á líka við Donald Trump, til þess að bæta hans gengi í kosningunum.“

epa08602978 Palestinian perform Friday prayer before burning cutouts depicting Abu Dhabi Crown Prince Mohammed bin Zayed al-Nahyan, Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu and US President Donald J. Trump during a protest against the peace agreement to establish diplomatic ties between Israel and the United Arab Emirates, in the West Bank city of Nablus, 14 August 2020. Israel and the United Arab Emirates reached an agreement to fully normalize relations.  EPA-EFE/ALAA BADARNEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Palestínumenn upplifa mikil svik.

 

Þá hafi viðvera og afskipti Bandaríkjamanna verið furstadæmunum mjög í hag og þeir óttist hverjir komi til með að fylla það tómarúm, hverfi Bandaríkin á brott. „Þannig að þetta er kannski svona leið til þess að binda akkeri Bandaríkjamannna enn frekar í eyðimörkina í furstadæmunum,“ segir Magnús Þorkell. 

Palestínumenn hafa mótmælt samkomulaginu harðlega og upplifa það sem mikil svik. Magnús er ekki hissa á því. „Að sjálfsögðu. Þeir voru ekki hluti af þessum samningaviðræðum og þeir sjá ekki fram á að þetta muni breyta neinu hvað varðar þeirra stöðu. Ef eitthvað er þá á staða þeirra eftir að versna með þessu samkomulagi.“