Frakkar andmæla lausn fanga í Afganistan

16.08.2020 - 01:41
epa08602640 A handout photo made available by the National Security Council (NSC) of Afghanistan shows Taliban prisoners preparing to leave from a government prison in Kabul, Afghanistan, 13 August 2020 (issued 14 August 2020). Afghanistan's National Security Council announced that at least 80 Taliban prisoners out of 400 have been released from jail. The prisoners' release is a pre-condition for the intra-Afghan talks.  EPA-EFE/AFGHANISTAN NATIONAL SECURITY COUNCIL HANDOUT -- BEST QUALITY AVAILABLE -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - AFGHANISTAN NSC
Frönsk stjórnvöld andmæltu formlega í gær lausn þriggja fanga í Afganistan. Mennirnir þrír eru allir í haldi fyrir að hafa myrt franska ríkisborgara. Lausn þeirra er liður í ákvörðun stjórnvalda í Kabúl um að leysa 400 Talibana úr haldi í fangelsum landsins.

Fyrstu 80 föngunum var sleppt á föstudag. Þegar allir 400 eru lausir úr fangelsi er búist við því að samninganefndir stjórnvalda og Talibana setjist niður til friðarviðræðna. Samkomulagið er verulega umdeilt, því margir fanganna sitja inni fyrir aðild sína að morðum á almennum borgurum, jafnt afgönskum sem erlendum.

Í yfirlýsingu franska utanríkisráðuneytisins segir að Frakkar lýsi harðri andstöðu gegn lausn einstaklinga sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi gegn frönskum ríkisborgurum. Afgönsk yfirvöld hafa verið beðin um að halda þeim mönnum áfram inni.

Meðal fanganna eru tveir menn sem myrtu Bettina Goislard, starfsmann flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, í nóvember árið 2003. Þriðji maðurinn situr inni fyrir að drepa fimm franska hermenn og særa þrettán til viðbótar árið 2012.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi