Ferðamálaráðherra segist „ekki hafa farið út á lífið“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, hafnar því að hún hafi farið út á lífið í gær og segist eingöngu hafa hitt vinkonur sínar í hádegisverð, farið með þeim búðir á Laugaveginum og síðan borðað með þeim kvöldmat. Myndir, sem birtust af Þórdísi ásamt vinkonuhópnum á samfélagsmiðlinum Instragram í gær, hafa vakið spurningar.

Vefur Fréttablaðsins birti myndirnar í morgun en þar kemur jafnframt að einhverjum þeirra hafi verið eytt.   Blaðið fékk skjáskot af myndunum.

Þórdís segir í færslu á Facebook að þetta hafi verið langþráður frídagur með æskuvinkonum sínum sem henni þyki vænt um. Hann hafi verið nærandi og hún hafi hlakkað mikið til hans. „Við borðuðum saman kvöldmat. Við fórum ekki út á lífið líkt og fullyrt hefur verið, það er rangt.“

Þórdís segir í samtali við fréttastofu að miðað við umræðu dagsins sé alveg  ljóst að þessar myndir séu óheppilegar.  Hún tekur hins vegar skýrt fram að þær hafi verið meðvitaðar um stöðu mála og haft í heiðri þær reglur sem gilda. „Einfaldara hefði verið að sleppa þessu en við fylgdum settum reglum.“

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir ráðherrann að hún hafi verið komin heim um miðnætti. Samkvæmt núgildandi reglum ber að loka öllum vínveitingastöðum klukkan 23.

Á myndunum má sjá ráðherrann fara í heilsulind, verslunarleiðangur og snæða hádegisverð á veitingastaðnum Vox ásamt vinkonum sínum. Ekki virðist mikið fara fyrir tveggja metra reglunni. Þær borðuðu síðan saman kvöldmat.

Fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðherra að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skuli tryggja að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.

Yfirvöld hafa jafnframt biðlað til fólks um að fara varlega í skemmtanahöld þar sem of mörg smit mætti rekja til djamms. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði í útvarpsþættinum Bítinu að þetta væru ekki eingöngu skemmtistaðir heldur líka heimapartý, einkasamkvæmi og annað slíkt.

Tilkynnt var á föstudag um hertar aðgerðir á landamærunum sem munu væntanlega hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna. Allir sem koma til landsins þurfa að fara í skimun við komuna, svo 4 til 5 daga sóttkví og mæta svo aftur í sýnatöku. Þórdís sagði í færslu á Facebook að sú ákvörðun hefði verið erfið og væri henni vonbrigði. „Áfram eru persónubundnar sóttvarnir langöflugasta tækið til að berja þessa veiru niður og hertari aðgerðir á landamærum koma aldrei í staðinn fyrir það,“ skrifaði Þórdís.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi