Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin hætta var vegna bilunar, segir yfirflugstjóri

16.08.2020 - 15:27
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Bilun í hreyfli olli því að Boeing 757 flugvél Icelandair, sem var á leið til Hamborgar í morgun var snúið við skömmu eftir að hún fór í loftið. Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair, segir að engin hætta hafi verið á ferðum. 

 

150 farþegar voru um borð í vélinni. Hún var í um 35.000 feta hæð yfir Kirkjubæjarklaustri skömmu eftir klukkan 8 í morgun þegar bilunar í hreyfli varð vart og þá var ákvörðun tekin um að snúa henni við. Flugvélin lenti síðan á Keflavíkurflugvelli klukkan 8:53.

Um tíu tonn af eldsneyti voru í vélinni en Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri hjá Icelandair, segir að ekki hafi þurft að losa það fyrir lendingu. Hún segir að atvik sem þessi séu fátíð hjá Icelandair.

„Það sem gerist er að það verður bilun í öðrum mótor. Samkvæmt verklagi  ber að slökkva á þeim mótor og í kjölfarið á því er ákveðið að snúa aftur við til Keflavíkur. Sem er fast verklag sem er viðhaft í svona tilfellum. Og það gekk bara allt saman mjög vel og áfallalaust. Þetta er eitthvað sem við erum mjög vön flugmenn að eiga við,“ segir Linda.

Spurð hvort einhverjum hafi verið hætta búin vegna þessa segir hún svo ekki vera.  „Nei. það var engin hætta á ferðum.“

Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að tilkynning um rautt neyðarstig hafi borist um klukkan hálf níu. Komið hafi fram að vél væri á leið til lendingar sem flygi á öðrum hreyflinum. 

„Þá er farið af stað að manna aðgerðastjórn  og síðan gerist það 8:57 að þá var þetta afturkallað. Fyrsta verkið okkar var að kalla út áfallahjálparlið en á endanum var það svo að farþegar voru afar rólegir og enginn þeirra hafði þörf fyrir að eigin mati að þiggja áfallahjálp. Þeir voru að bíða eftir næsta flugi og mér skilst að það flug hafi farið í loftið um hálf 11,“ segir Ólafur Helgi.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir