Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

7 stórtónleikar sem var aflýst eða frestað vegna COVID

epa04870222 The Icelandic singer Bjoerk perfoms at the Citadel Music Festival in Berlin, Germany, 02 Agust 2015.  EPA/BRITTA PEDERSEN
 Mynd: EPA - DPA

7 stórtónleikar sem var aflýst eða frestað vegna COVID

16.08.2020 - 09:33

Höfundar

Frá því veiran skall á heimsbyggðinni hefur meira og minna allt menningarlífið verið í lamasessi og óteljandi viðburðum verið aflýst eða frestað. Hér eru sjö tónleikar í stærri kantinum sem hafa orðið fyrir barðinu á kórónuveirunni og þeim samkomutakmörkunum sem eru fylgifiskar hennar.

Björk Orchestral

Björk tilkynnti í lok júní að hún myndi halda þrenna tónleika á Íslandi í ágúst til að fagna samstarfi sínu við íslenskt tónlistarfólk. Hún myndi spila í Eldborg þann 9., 15. og 23. ágúst með Hamrahlíðarkórnum, strengjasveit og blásturs- og flautuleikurum. Það seldist fljótt upp á tónleikana svo þeim fjórðu var bætt við 29. ágúst, en það eru þeir einu sem ekki enn hefur verið frestað. Eins og staðan er núna eiga tónleikarnir að verða 13., 19. og 28. september en það er ljóst að svo af því geti orðið þarf Þórólfur að leyfa tilslakanir á núverandi samkomubanni.


Secret Solstice

Tónlistarhátíðin sem hefur náð að festa sig í sessi í Laugardalnum boðaði meðal annars komu hassrapparanna í Cypress Hill, dansrokksveitarinnar Primal Scream og 90's stúlknabandsins TLC til landsins. Í byrjun apríl varð þó ljóst að vegna samkomubanns og ótryggs ástands í heiminum gæti ekki orðið af alþjóðlegri tónlistarhátíð um Jónsmessubil á Íslandi.

 


Khalid

Bandaríski RogB-söngvarinn Khalid skaust upp á stjörnuhimininn aðeins 18 ára gamall með munúðarfulla slagaranum Location árið 2016. Hans fyrsta breiðskífa American Teen sló í gegn ári síðar og Khalid hefur komið ótal lögum inn á topp tíu Billboard-listann og verið tilnefndur til sex Grammy-verðlauna. Hann átti loksins að syngja fyrir íslenska aðdáendur í Laugardalshöllinni 25. ágúst en í vikunni barst tilkynning um að tónleikunum hefði verið frestað til 14. júlí árið 2021.


Beck

Bandaríski tónlistarmaðurinn Beck hefur verið í fararbroddi tilraunapopps og slakker-rokks í á þriðja áratug. Þessi aldni iðjuleysingi er einhvers konar Bob Dylan X-kynslóðarinnar og stór hópur fólks tók 2. júní frá þegar goðið átti að spila í Laugardalshöllinni. Í byrjun apríl, á hápunkti COVID-faraldursins, var svo auðvitað gefið út að tónleikunum hefði verið aflýst.


Andrea Boccelli

Ítalski stórtenórinn Andrea Boccelli er einn vinsælasti söngvari heims. Hann er þekktur fyrir að blanda saman klassískum óperusöng og popptónlist og hefur selt meira en 90 milljónir platna á heimsvísu. Hann hefur sungið dúetta með poppstjörnum eins og Celine Dion, Ed Sheeran og Tony Bennet og hlotið sex tilnefningar til Grammy-verðlauna. Öllu var tjaldað til fyrir stórtónleika í Kórnum ásamt 70 manna sinfóníuhljómsveit SinfoniaNord og kór frá Söngsveitinni Fílharmóníu. Ásettur 13. maí gekk engan veginn upp vegna samkomubanns og óvissuþátta. Þeir eiga nú að fara fram 2. október og það verður spennandi að sjá hvort þríeykið leggi blessun sína yfir ráðahaginn.

 


Damon Albarn

Brit-popparinn, górillan og óseðjandi Íslandsfíkillinn Damon Albarn hugðist frumflytja nýtt tónverk innblásið af íslenskri náttúru, The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows. Nafnið er fengið úr ljóðinu Love and Memory eftir John Clare. Í janúar var blásið í lúðra og tilkynnt um frumflutning á verkinu á stórtónleikum í Eldborgarsal Hörpu 12. júní, sem hefðu orðið fyrstu tónleikar Albarns á Íslandi í 23 ár, en COVID sagði stopp og nú er ætlunin að halda tónleikana 28. mars á næsta ári.


Jóker: Kvikmyndatónleikar

Til stóð að sýna kvikmyndina Jóker í menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem sinfóníuhljómsveitin SinfoniaNord myndi leika óskarsverðlaunatónlist Hildar Guðnadóttur undir. Stjórnandinn átti svo að vera faðir tónskáldsins. Þessu var öllu saman snarlega slaufað um miðjan mars en hefur nú verið fundinn nýr staður og stund, í Eldborg þann 20. nóvember. Vonum að það gangi betur þá.

Tengdar fréttir

Tónlist

Besta tónleikamynd allra tíma

Sjónvarp

Sjö sótfyndnir grínþættir sem nóg er til af

Sjónvarp

Fjórar stórgóðar fordæmalausar seríur í sóttkvína

Kvikmyndir

Átta myndir sem hefðu átt að vinna Óskarinn