
Verða fyrir líkamsárásum vegna kynhneigðar
Þetta er niðurstaða könnunar sem Samtökin 78 kynntu í gær en þetta er í fyrsta sinn sem líðan hinsegin ungmenna í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi er könnuð sérstaklega. 181 nemandi á aldrinum 13 til 20 ára svaraði könnuninni sem var gerð skólaárin 2016 og 2017.
Áreiti algengt
Könnunin leiðir meðal annars í ljós að einn af hverjum þremur varð fyrir munnlegri áreitni vegna kynhneigðar sinnar á því skólaári, 12,6 prósent urðu fyrir líkamlegri áreitni og einn af hverjum 12 mátti þola líkamsárás á undangengnu skólaári, gagngert vegna kynhneigðar.
Vilja fræðslu í fleiri sveitarfélög
Tótla Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna 78, segir niðurstöðurnar sýna að hinsegin ungmenni finni fyrir óöryggi í skólanum. „Við viljum náttúrlega gera miklu betur. Ég held að fyrsta skrefið sé fræðsla.“
Samtökin 78 hafa samið við Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ um hinsegin fræðslu í skólum en meira þarf til. „Við viljum náttúrlega sjá samninga við sem flest sveitarfélög. Það væri draumurinn, að við gætum komið inn í sem flesta skóla og þetta sé ekki í rauninni val hvers skóla fyrir sig hvort það sé hinsegin fræðsla.“