
Pútín og Lúkasjenkó ætla að leysa vandann innan skamms
Fólkið er þar samankomið til að krefjast endurtalningar á atkvæðum í forsetakosningunum um síðustu helgi, þess að Svetlana Tsíkhanovskaja verði lýstur sigurvegari kosninganna og til að minnast Alexander Taraíkovskí sem lést í mótmælum í borginni á mánudaginn og fer útför hans fram í dag.
Fólkið veifar fánum og hefur lagt kerti og blóm á gangstéttina við neðanjarðarbrautarstöðina þar sem Taraíkovskí lést. Aðrir halda á lofti myndum af fólki sem hefur slasast í mótmælunum og bílstjórar þeyta flautur bíla sinna.
Fólkið kallar „farðu“
Margir í hópi mótmælenda kalla „farðu“ sem er ákall til Lúkasjenkó um að láta af embætti. Aðrir bera skilti með slagorðum gegn ofbeldi lögreglu.
„Báðir aðilar eru sannfærðir um að þau vandamál, sem nú er við að etja, verði leyst innan tíðar,“ segir í yfirlýsingu frá stjórnvöldum í Kreml sem send var út eftir símtal forsetanna. Þar segir að brýnt sé að „eyðingaröfl“ notfæri sér ekki ástandið, slík öfl leitist við að grafa undan samvinnu ríkjanna tveggja. Rússar eru eina nágrannaríki Hvíta-Rússlands sem hefur stutt Lúkasjenkó undanfarna daga, en fjölmörg ríki hafa efast um niðurstöður kosninganna.
Undanfarna daga hafa mörg þúsund manns verið handteknir í mótmælunum í Hvíta-Rússlandi og fólk sem hefur verið leyst úr haldi lýst slæmri meðferð og ofbeldi innan fangelsisveggjanna. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja sannanir hrannast upp um skipulagða herferð stjórnvalda sem pynti friðsama mótmælendur. Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja veittu í gær samþykki fyrir því að leggja viðskiptaþvinganir á hvítrússneska embættismenn sem bera ábyrgð á ofbeldi gegn mótmælendum í landinu.
Frelsisganga fyrirhuguð á morgun
Svetlana Tsíkhanovskaja , sem bauð sig fram gegn Lúkasjenkó í forsetakosningunum í Hvíta-Rússlandi um síðustu helgi, hefur hvatt landa sína til að halda mótmælum áfram um helgina, en hún flúði til Litháen.
Á morgun er fyrirhuguð mótmælaganga undir heitinu „Frelsisgangan“ og verður hún gengin um miðborg Minsk.