Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Of vindasamt fyrir eldflaugaskot

Skyrora
 Mynd: Skyrora - Ljósmynd
Eldflaug skoska fyrirtækisins Skyrora var ekki skotið frá Langanesi í morgun eins og ráðgert hafði verið vegna veðurs. Til stendur að reyna aftur á morgun, leyfi Skyrora til að skjóta flauginni tók gildi á miðvikudaginn og gildir það í nokkra daga.

Skyrora hefur lýst sér sem Uber geimiðnaðarins, en það þróar og smíðar eldflaugar sem ætlað er að ferja gervihnetti út í geim og skotið í morgun átti að vera tilraunaskot og liður í prófunum.

Of hvasst er á svæðinu til að hægt sé að skjóta flauginni að sögn Atla Þórs Fanndal hjá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni og var ákvörðun um að fresta skotinu tekin eftir að veðurbelgur var sendur upp snemma í morgun til að kanna aðstæður.

„Við höfum nokkra skotglugga,“ segir Atli. „Við reynum aftur í fyrramálið og ef það gengur ekki höfum við fleiri möguleika næstu daga.“

Að sögn Atla er um 20 manna tækniteymi frá Skyrora á svæðinu, auk starfsfólks Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar og starfsfólks Skyrora.  Hann segir að Langanes henti sérlega vel til tilraunasskots sem þessa.