Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fjárhagsáætlanir gætu orðið flókið verkefni

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Árið 2020 er þegar í uppnámi og væntingar sveitarfélaganna um aukið útsvar í ár verða á fæstum stöðum að veruleika. Þetta segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hún að gerð fjárhagsáætlana sveitarfélaganna í haust gæti reynst flókið verkefni og segist treysta því að ríkið muni styðja við sveitarfélögin, gerist þess þörf.

Aldís segir í viðtalinu að sveitarfélögin þurfi með einhverjum hætti að mæta þeim útgjöldum sem fyrirséð sé að bætist við, en sveitarfélögunum er skylt að veita tiltekna þjónustu. Þá hafi verið boðaðar 100-200 milljóna króna skerðingar á jöfnunarsjóði hjá sumum sveitarfélögum.

Aldís vísar í minnisblað sambandsins þar sem tilgreindir eru sex óvissuþættir um framvindu efnahagsmála sem gætu haft áhrif á gerð fjárhagsáætlananna. Þeir eru kjarasamningar, ferðaþjónusta, ríkisfjármál, skattamál, alþjóðleg efnahagsþróun og verð útflutningsvara og óvissa um aflabrögð.

Haft er eftir Aldísi í viðtalinu að mikilvægt sé að fjármunir til jöfnunarsjóðs verði auknir. Þá verði að tryggja að ákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingarframkvæmdum verði framlengt út næsta ár.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir