Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fá 90 daga til að losa sig við TikTok

15.08.2020 - 07:40
epa08603979 US President Donald J. Trump arrives for a press briefing at the White House in Washington, DC, USA, on 14 August 2020.  EPA-EFE/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í gærkvöld tilskipun um að kínverska fyrirtækið ByteDance verði að selja frá sér snjallforritið TikTok. ByteDance er kínverskt fyrirtæki, og segir í tilskipuninni að áreiðanlegar sannanir séu fyrir því að forritið sé ógn við þjóðaröryggi í Bandaríkjunum.

ByteDance keypti forritið Musical.ly fyrir þremur árum. Í staðinn var sett upp forritið TikTok, sem hefur náð miklum vinsældum um allan heim. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar ímugust á forritum í eigu kínverskra fyrirtækja, og hefur Trump óskað eftir því að lokað verði á TikTok og samskiptaforritið WeChat í Bandaríkjunum.

Vilja veita notendum áframhaldandi gleði

Forsvarsmenn ByteDance sögðu í samtali við AFP fréttastofuna að 100 milljón bandarískir notendir njóti TikTok. Þeir vilji halda áfram að veita fjölskyldum gleði og leyfa þeim sem nota forritið að njóta góðs af því árum saman. 

Samkvæmt tilskipuninni verður ByteDance að hafa losað sig við eignarhlut sinn í forritinu innan 90 daga. Öll viðskipti með forritið verða að vera samþykkt af opinberri nefnd um erlenda fjárfestingu. Nefndin á jafnframt að fá aðgang að reikningum ByteDance. Þá á öllum gögnum um notendur að vera eytt.

Microsoft í viðræðum

Trump undirritaði tilskipanir í síðustu viku um að bandarísk fyrirtæki eigi að hætta viðskiptum við TikTok og WeChat innan 45 daga. Þær voru einnig sagðar mikilvægar til að tryggja þjóðaröryggi.

Bandaríski tæknirisinn Microsoft hefur átt í viðræðum við ByteDance um kaup á TikTok á bandarískum, áströlskum, kanadískum og nýsjálenskum markaði.