Ekkert lát á erjum skrifstofustjóra og Vigdísar

15.08.2020 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ekkert lát er á erjum Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra, og Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins. Vigdís gagnrýndi enn og aftur á fimmtudag að Helga Björg skyldi sitja fundi borgarráðs sem Helga Björg svaraði með færslu á Facebook. Meirihlutinn í borgarráði brást ókvæða við bókun Vigdísar og sakaði hana um kjarkleysi og niðurrifs og ofbeldishegðun.

Andað hefur köldu milli Vigdísar og Helgu Bjargar.   Helga Björg hefur kvartað undan framkomu borgarfulltrúans og telur hana flokkast sem einelti og Vigdís hefur sjálf skrifað Vinnueftirlitinu bréf þar sem hún kvartar yfir Helgu Björgu.

Fréttastofa greindi frá því í maí að Vigdís hefði ákveðið að snúa baki í Helgu Björgu þegar þær sitja sömu fundi og skiptir þá engu hvort Helga sitji fundi í gegnum fjarfundabúnað.

Vigdís tók málið aftur upp á fundi borgarráðs á fimmtudag og sagði skrifstofustjóra borgarstjóra hafa brotið á sér með „lygum, óheiðarleika og upplognum sökum.“ Formaður borgarráðs væri ekki starfi sínu vaxin með því að leyfa Helgu Björgu að sitja fundina. Eineltisteymi ráðhússins hefði látið mál sem hún hefði rekið gegn henni í tæp tvö ár niður falla. 

Meirihlutinn brást harkalega við þessari bókun Vigdísar og sagði málið hafa verið látið niður falla þar sem Vigdís hefði verið ósamvinnuþýð. Hún hefði ekki kjark til að horfast í augu við eineltistilburði sína og láta af niðurrifs-og ofbeldishegðun.  „Það er ekki sæmandi borgarfulltrúa sem er í valdastöðu að ráðast ítrekað að einni manneskju sem er eingöngu að sinna starfsskyldum sínum og sem hefur ekki sama aðgang að opinberri umræðu og borgarfulltrúinn,“ sagði í bókun meirihlutans.

Vigdís var ekki af baki dottin og sagði eitrað loft til staðar í ráðhúsinu. Hún hefði aldrei verið velkomin í ráðhúsið sem segði henni að hún væri að gera rétta hluti „enda hef ég komið upp um mörg spillingarmál.“

Helga Björg brást sjálf við á Facebook í gær þar sem hún sagðist ekki lengur geta setið þegjandi hjá.  Hún hefði áður talið óhugsandi að bregðast opinberlega við ummælum kjörins fulltrúa en niðurstaða sín væri sú að hún geti ekki lengur setið þögul undir þessum árásum. „ Ef svona pólitík fær að virka óáreitt og kerfið á engin svör við henni, þá óttast ég að þetta geti verið byrjunin á því sem koma skal.“

Hún segir það skaðlegt að aðrir borgarfulltrúar skuli ítrekað þurfa að verjast árásum borgarfulltrúans á sig og annað starfsfólk borgarinnar „í stað þess að geta einbeitt sér að því að vinna að góðum málum í þágu borgarbúa.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi