Danir herða sóttvarnaaðgerðir

Mynd með færslu
Reglurnar breytast ört í Danmörku þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins. Mynd: DR
Frá og með sunnudeginum 22. ágúst verður skylda að bera grímur í almenningssamgöngum í Danmörku til að hindra kórónuveirusmit. Til skoðunar er að skylt verði að bera grímu á fleiri stöðum þar sem margir koma saman, til dæmis í verslunum. Þetta sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur á blaðamannafundi í dag.

Smitum hefur fjölgað mjög í Danmörku að undanförnu.  Í frétt Danska ríkisútvarpsins, DR, segir að í fyrradag hafi greinst þar 165 smit og í gær hafi greinst 104 smit.

Stór hluti þeirra sem greinst hafa undanfarnar vikur eru innflytjendur og fólk sem tilheyrir ýmsum minnihlutahópum. Til dæmis hefur komið upp hópsmit í samfélagi Sómala og Líbana og er hópsmit í Árósum nýverið rakið til þessara þjóðfélagshópa.

Samkomutakmarkanir í Danmörku miðast við 100 manns, til stóð að rýmka þær upp í 500 manns í gær, en því hefur verið frestað að minnsta kosti til 31. október.  Opnun skemmtistaða hefur verið frestað til 31. október og Thomas Benfield, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild sjúkrahússins i Hvidovre, segir í samtali við DR að ólíklegt sé að þeir verði opnaðir aftur á þessu ári. „Ég sé það ekki fyrir mér,“ segir Benfield við DR. „Það verður kominn vetur og þá er alltaf meira um loftborin vírussmit. Þannig að ég efast um að þetta verði á næstunni, að minnsta kosti ekki í ár.“

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi