Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonbrigði en nauðsynleg ákvörðun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, sagði að þótt ákvörðunin um að skima alla farþega tvisvar, með sóttkví á milli, væri vonbrigði í sjálfu sér væri hún nauðsynleg. Þetta hafi mikil áhrif á ferðamenn og mikilvægt sé að þessi ákvörðun sé sífellt til endurskoðunar og hægt verði að fara til baka eins fljótt og auðið er.

Þetta hefur auðvitað töluverð áhrif á ferðaþjónustuna, sagði Þórdís Kolbrún. Hún bendir á að ferðavilji fólks litist af stöðu viðkomandi landa.

Lykilatriði að hafa kjark til að rýmka reglur aftur

Hún segir að allir í ríkisstjórn hafa verið samstíga með tilliti til allra atriða um að fara þessa leið. Þegar aðstæður leyfi verði lönd sett aftur inn á grænan lista og þá verði fallið frá sóttkví og seinni skimun. Það sé lykilatriði í ákvarðanatökunni og einnig að hafa kjark til að falla frá stífari reglunum um leið og aðstæður leyfi. 

Minni ferðavilji á alheimsvísu

Varðandi það hvort aðgerða frá ríkisstjórninni megi vænta til að styðja ferðaþjónustufyrirtæki segir Kolbrún þær samræður ekki hafnar. 

Þórdís Kolbrún segir ekki mega gleyma því að ytri áhrif hafi þessi áhrif, veiran sé í vexti ytra sem innanlands og því sé minni ferðavilji á alheimsvísu.

Þessi tími verði langur og kalli eflaust á breytingar hjá fyrirtækjum. Ekki hafi verið ákveðið neitt um að framlengja hlutabótaleið eða annað  í kjölfarið, hún segir spursmál hvort fyrirtæki nýti sér frekar þau úrræði sem þegar voru í boði nú þegar reglur verða hertar.