Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Neikvæð áhrif en raskar ekki hlutafjárútboði

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair
 Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist
Forstjóri Icelandair segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar komi til með að hafa neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Draga muni bæði úr eftirspurn og ferðavilja. Þetta hafi þó hvorki áhrif á langtímaáætlanir né hlutafjárútboð félagsins.

„Auðvitað mun þetta hafa neikvæð áhrif á eftirspurn og ferðavilja og þar af leiðandi mjög neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu nú í haust ef þetta verður til lengri tíma,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um þá ákvörðun að ferðamenn þurfi að fara í sóttkví á milli skimana við komuna til landsins.

Bogi segir að líklega muni félagið þurfa að draga úr sætaframboði og fella niður ferði vegna þessara nýju reglna. Þær hafi þó hvorki áhrif á langtímaáætlanir félagsins né fyrirhugað hlutafjárútboð. „þetta hefur engin áhrif á þau því að allt frá því í vor höfum við verið að gera ráð fyrir því að í alllangan tíma og jafnvel fram á næsta ár að það komi jákvæðar og neikvæðar fréttir á víxl og við erum undir það búin. Þetta fjárfestingatækifæri og okkar plön miða við að þetta verði svona og síðan hefjist róleg uppbygging næsta vor.“