Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Litróf skugganna

Mynd með færslu
 Mynd: Aldís Fjóla - Shadows

Litróf skugganna

14.08.2020 - 09:15

Höfundar

Aldís Fjóla á að baki giska langan feril sem tónlistarmaður og söngkona en Shadows er hennar fyrsta sólóplata og plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni.

Tónlistarkonan Aldís Fjóla er frá Borgarfirði eystra og byrjaði ung að syngja og koma fram. Hún hefur komið víða við á sínum ferli, meðal annars á Bræðslunni með hljómsveitinni Borgfjörð. Þessa fyrstu plötu sína vinnur hún náið með Stefáni Erni Gunnlaugssyni (Íkorni) sem semur með henni lögin auk þess að upptökustýra, taka upp og hljóðblanda. Stefán og Aldís útsetja í sameiningu. Auk þeirra tveggja koma svo Birgir Bragason, Halldór Sveinsson og Kristófer Nökkvi Sigurðsson að hljóðfæraleik.

Drama

Innihaldið er nokkurs konar dramabundið popprokk, svona að mestu. Hljóðfæraleikur, hljómur og allt slíkt er til fyrirmyndar og voldug rödd Aldísar miðjar þetta vel, eyrun fókusera ósjálfrátt á hana þegar hún hefur upp raustina. Lagasmíðarnar sem slíkar, uppbygging þeirra og eðli, eru hins vegar brokkgengar. Fyrsta lagið, sem ber hin ógurlega titil „The End“, er því miður dæmi um slíkt. Stórgert, næsta epískt, en ósannfærandi. Það er ókennilegur söngleikjabragur yfir því sem er fælandi. „Slip Away“ er hins vegar mun betra. Stillt og höfugt, reisn yfir bragnum sem var víðsfjarri í opnuninni. Glúrin uppbygging, hárrétt hljóð sem áhrifshljóð fylgja laginu glæsilega til hafnar og söngröddin einkar hæfandi. „Circus“ græðir á beittum texta og ástríðufullum flutningi Aldísar þó að lagið sjálft sigli heldur lygnan sjó. „Strong for you“ er í blúsuðum gír og strengir gefa því næsta kvikmyndalegan blæ. Útsetningin einkar vel heppnuð í þessu tilfelli, hún gefur heldur einfaldri smíð aukasett af vængjum.

„In my dreams“ er hins vegar ballaða, píanó í öndvegi, og ágætlega heppnuð sem slík. Eins og sjá má eru stílbrögðin á ýmsa lund hérna, þó að heildarhljómi sé vissulega haldið. Titillagið, „Shadows“, er á Portisheadsvæðinu, skuggum bundið og ægidramatískt tripp hopp. Söngrödd Aldísar minnir mig stundum á Alison Moyet, stór og öflug og heimtar athygli (sjá t.d. „Down“). Flest lögin hérna eru þannig stóreflissmíðar, vel útsett hvar þau gnæfa yfir hljóðrásinni. Það er vikið frá þessari þumalputtareglu í lokalaginu sem er í allt öðrum blæ en restin - og um leið langbesta lag plötunnar. „Wake up“ er hnitmiðaður rokkari, með flottum gítar, rökkurnýbylgja sem minnir helst á Garbage. Það er eitthvað í laginu sem hittir mann þráðbeint. 

Epík

Stefáni og Aldísi hefur tekist vel að búa til epískan hljóðheim hér, hvar góð söngrödd Aldísar og útsjónarsamar og vel skrýddar útsetningar vinna vel saman. Lagasmíðalega séð er verkið hins vegar nokkuð köflótt, þó við séum alls ekki í neinni rauðri viðvörun hvað það varðar. Allt í allt hinn ágætasti frumburður.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Dramatískt og einlægt