Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki verið rætt um framlengingu hlutabóta

14.08.2020 - 21:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engin umræða hefur átt sér stað innan ríkisstjórnarinnar um að framlengja hlutabótaleiðina. Sú ákvörðun að herða skimun á landamærum vegna fjölgunar kórónuveirusmita víða um heim kann  hins vegar að kalla á endurskoðun á fyrri ákvörðunum að mati ráðherra ferðamála.

Hlutabótaleiðin fellur úr gildi um næstu mánaðamót og var haft eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, í sjónvarpsfréttum í gær, að hún teldi ekki þörf á að framlengja hana. 3.811 voru á hlutabótaleiðinni í síðasta mánuði, en verulega hefur dregið úr þeim fjölda frá því sem mest var.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að þrengingar á hlutabótaleiðinni væru ástæða þess að hún væru ekki betur nýtt.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, vill hins vegar sjá framlengingu á hlutabótaleiðinni. „Við höfum lagt það til við stjórnvöld að framlengja hlutabótaleiðina og reyndar laun í sóttkví líka sem renna út í lok september,“ segir Drífa og bendir á að mun fleiri séu að nýta sér hlutabótaleiðina nú en gerðu í kjölfar hrunsins.

Kann að hafa áhrif einhver fyrirtæki

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála segir slíkt ekki hafa verið rætt innan stjórnarinnar.

„Það hefur ekki verið rætt neitt slíkt við ríkisstjórnarborðið,“ segir Þórdís Kolbrún. Ákvörðun líkt og sú sem kynnt var í dag um harðar skimun á landamærum geti hins vegar kallað á endurskoðun á fyrri ákvörðunum.

„Svo kann líka að vera að þetta hafi áhrif á fyrirtæki og þau nýti sér frekar einhver úrræði sem þau héldu að þau þyrftu ekki að gera, hvort sem það er varðandi fjárhagslega endurskipulagningu eða annað.“