Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bretar flykkjast heim áður en sóttkví skellur á

epa08597300 A family enjoy the sun at the beach close to Dover Ferry terminal in Dover, Britain, 11 August 2020. According to news reports the UK  government is considering adding France to the UK quarantine list as the numbers of Coronavirus cases in France continue to rise.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugþúsundir bresks ferðafólks eru í kapphlaupi við tímann að komast heim áður en nýjar reglur um sóttkví taka gildi klukkan fjögur næstu nótt.

Ferðalangar staddir í Frakklandi, Hollandi, Möltu og Mónakó auk tveggja eyja í Karíbahafi þurfa að sæta fjórtán daga sóttkví við heimkomu eftir þann tíma. Ástæðan er sú að kórónuveirusmitum hefur fjölgað mjög í þeim löndum.

Grant Shapps samgönguráðherra Bretlands sagði í útvarpsviðtali í morgun að Bretar hefðu lagt hart að sér við að ná fjölda smita niður. Því sé ekki réttlætanlegt að fólk komi heim úr fríi með veiruna í farteskinu.

Shapps sagði því ráðstafanirnar nú vera gerðar til verndar öllum. Að sögn BBC hefur verið bætt við ferjuferðum yfir Ermarsund í dag, upppantað er í EuroTunnel-lestirnar og flugfargjöld hafa hækkað verulega.

Ferðalöngum finnst ákvörðun ríkisstjórnarinnar bera skjótt að. Þeim hafi sumum gengið illa að finna far heim auk þess sem kostnaður sé mikill. Lestir og önnur farartæki séu sömuleiðis full af stressuðu fólki á heimleið.