Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Verða tolleraðir þegar leyfi fæst

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Kennsla í framhaldsskólum verður víðast hvar með allt öðrum hætti en venjulega vegna kórónuveirunnar. Bekkjum í Menntaskólum í Reykjavík verður skipt í tvennt og félagslífið fer úr skorðum. Rektor skólans segir að nýnemar verði tolleraðir þegar leyfi fæst fyrir því. Það verði enginn sannur MR-ingur nema að hann hafi verið tolleraður

Það er ljóst að kennsla og nám bæði í háskólum og framhaldsskólum mun mótast mjög af nærveru kórónuveirunnar. Skólahaldið verður flókið og talsvert öðruvísi en í vetur þegar veiran fór af stað.

„Já, þetta verður í raun mjög flókið. Við þurfum að skipta upp nemendahópnum.“

Bekkjum skipt í tvennt

Segir Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík. Starfsmenn skólans hafa að undanförnu unnið hörðum höndum við að skipuleggja námið. Elísabet segir að miðað við þær reglur sem nú gilda verði reynt að leyfa nemendum að komast eins mikið í skólann og hægt er. Gert var ráð fyrir að skólahald hæfist 20. ágúst en nú er ljóst að ekki verður af því fyrr en þann 24., og þá mæta einungis nýnemar eða fjórði bekkur. Síðan koma hinir tveir bekkirnir.

„Okkar vandræði eru kannski fyrst og fremst þau að við erum með svo litlar skólastofur. Við þurfum að skipta öllum bekkjum. Sem betur fer er eins metra reglan en ekki tveggja metra því þá hefðum við þurft að þrískipta sumum bekkjum,“ segir Elísabet.
 
Í meginatriðum verður skipulagið þannig að helmingurinn í hverjum bekk mætir einn daginn og hinn helmingurinn situr heima og fylgist með kennslunni í gegnum fjarfundarbúnað. Málið er þó ekki svo einfalt því ekki er hægt að vera með þetta fyrirkomulag dag frá degi.

„Nei, það gengur ekki út af húsnæðinu. Við kennum bóknámið í þremur byggingum og við þurfum að passa að það verði ekki fleiri en hundrað manns í hverri byggingu. Einnig þessi fjarlægðarmörk. Síðan erum við með sérstakt hús fyrir verklega kennslu.“

Hafa mikla félagsþörf

Það má segja að kennsla hafi verið einfaldari í vetur og vor því þá var skólunum einfaldlega lokað og aðeins fjarkennsla í boði.

„En núna erum við að reyna að hafa einhvers konar sambland, staðkennslu og fjarkennslu. Það kemur líka til af því að við höfum áhyggjur af nemendum okkar vegna þess að þeir hafa þessa félagslegu þörf og samskiptaþörf. Við teljum að það hljóti að vera betra að þau geti komist í skólann heldur en alls ekki.“ En hefur Elísabet orðið vör við að þetta hafi einhver áhrif á nemendur og kennara? Hún segir að það sé kannski of snemmt að segja til um það.„Ég er alveg sannfærð um að þetta hefur haft einhver áhrif. Hvort að það séu langtíma áhrif held ég að fari eftir því hve lengi við verðum að búa við þetta. Vegna þess að í vor þá lögðust allir á eitt að klára dæmið. Núna hins vegar er auðvitað beygur í einhverjum. Bara það að þurfa að upplifa þetta aftur á einhvern hátt. Við reynum að gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir fólk brenni út í þessu umhverfi,“ segir Elísabet Siemsen.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Bekkurinn verður ekki svona þéttsetinn

Nýnemar verða tolleraðir en ekki strax

Í öllum framhaldsskólum er blómlegt félagslíf.  Ljóst er að lítið verður af því í núverandi ástandi. Það veldur skólameisturum áhyggjum.

„Við höfum áhyggjur af því að nemendur geti ekki stundað sitt félagslíf. Félagsþörf þeirra er mjög mikil. Ef eitthvað er þá er hún vanmetin frekar en hitt.“

En verða nýnemar tolleraðir? Elísabet hefur þegar tilkynnt eldri nemendum að þeir fái að tollera nýnemana, hvenær svo sem það verður.

„Það verður þá bara um leið og við fáum leyfi til, en það er enginn sannur MR-ingur nema að hann hafi verið tolleraður. Það er ein af hefðunum,“ segir Elísabet.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV