Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Taugríma ekki það sama og taugríma

13.08.2020 - 14:23
epa08393695 A face mask sits next to a shoe in a store in Rosenheim, Germany, 30 April 2020. Due to the ongoing pandemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus, the sustainable sports shoe company has added masks crafted from scrap fabric to its product portfolio.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA
Efnisval og fjöldi laga skiptir miklu máli þegar kemur að gagnsemi taugríma til þess að bægja frá kórónuveirusmiti. Þetta segir Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum. Jón Magnús birti grein á Vísindavefnum í dag þar sem hann ræðir kosti og galla fjölnota taugríma.

Jón segir að rannsóknir hafi sýnt fram á að taugrímur virki ekki eins vel og skurðgrímur eða veirugrímur. „Hins vegar geta þær verið betra en ekki neitt ef aðstæður leyfa ekki annað,“ segir Jón í grein sinni. 

Jón Magnús segir í samtali við fréttastofu að sum efni veiti betri smitvörn en önnur. Hefðbundnar skurðgrímur eru yfirleitt með millilag úr þéttri, bræddi fjölliðu sem hindrar vel raka. Taugrímur eru hins vegar ekki með slíkt millilag, heldur eru þær yfirleitt búnar til úr nokkrum lögum af taui, til dæmis bómull. „Ef maður ber saman leður og bómull er alveg ljóst að rakadrægnin er ólík,“ segir hann. 

Samkvæmt rannsóknum á taugrímum skiptir þéttni efnisins miklu máli, en hún er oft mæld í þráðafjölda (e. thread count). Jón Magnús segir að þótt bómull sé mikið notuð í grímur, þá virki sum efni enn betur. Silki hefur til að mynda betri eiginleika til að koma í veg fyrir dreifingu örfínna dropa. 

En þýðir það að taugrímur úr silki virki betur?

„Það er hægt að nota silki en þá er best að nota það með bómull. Til dæmis er hægt að búa til grímu úr þremur lögum þar sem ysta og innsta lagið er úr bómull en miðjulagið úr silki,“ segir Jón Magnús. Hann segir að eiginleikar efnanna séu mismunandi og geti stuðlað í sameiningu að betri vörn en gríma sem er úr bómull eða silki einu og sér. Jón Magnús bendir á að einnig sé hægt að hafa þétta gervifjölliðu á milli, sé það fyrir hendi. 

Þá segir Jón Magnús að taugrímur verði að vera marglaga ef þær eiga að veita vörn gegn smiti, eða þriggja laga að lágmarki. 

Hann segir lykilatriði að hvetja alla til þess að nota grímur ef ekki er hægt að gæta fjarlægðar. Við slíkar aðstæður geta grímur bæði verndað notanda hennar sem og aðra fyrir smiti. Jón Magnús telur þó að skurðgrímur séu besti kosturinn ef þær eru fyrir hendi.