Sýkla- og veirufræðideild og ÍE snúa bökum saman

13.08.2020 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans flyst tímabundið til Íslenskrar erfðagreiningar. Þar með mun afkastagetan aukast til muna.

Karl G. Kristinsson yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans var gestur á upplýsingafundi almannavarna  í dag. Hann sagði að deildin hafi verið í startholunum strax í byrjun árs og komin með aðferð til að greina SARS-kórónuveiru í lok janúar, eða um mánuði áður en fyrsta kórónuveirutilfellið greindist hér.

„Tækjamálin hefðu mátt vera í betra lagi. En Landspítalanum er skammtað tækjakaupafé og hjá okkur hefur það að mestu þurft að fara í að endurnýja nauðsynleg tæki,“ segir Karl G. Kristinsson.

Nauðsynleg tæki hefðu þurft að fara í tímafrekt útboð og voru útboðsgögn næstum tilbúin þegar faraldurinn skall á og neyðarstigi síðan lýst yfir. Þá var ljóst að afkastagetan yrði takmarkandi þáttur. Við slíkar aðstæður megi sleppa útboði og segir Karl að strax þá hafi verið farið í að panta nauðsynleg tæki. Sum séu komin, en aðaltækið komi ekki fyrr en í nóvember. Þá var starfsfólki fjölgað.

„Starfsfólki hefur verið fjölgað svo um munar. Við erum búin að ráða 20 nýja starfsmenn til að sinna COVID greiningunum, við höfum flutt starfsfólk frá sýklahlutanum yfir á veirufræðideild og um tíma vorum við einnig með starfsmenn úr bakvarðasveitinni.“

Karl segir starfsfólkið hafa lagt á sig mikla vinnu, sumir séu ekki enn þá farnir í sumarfrí og aðrir hafi breytt sínum fríum. Afkastagetan hafi verið um tvö þúsund sýni á dag, en undanfarna viku hafi sýnin verið yfir  tvö þúsund og fimm hundruð að meðaltali á dag og yfir þrjú þúsund síðustu tvo daga.

„Hins vegar getur þetta ekki gengið svona áfram. VIð erum því þakklát boði Íslenskrar erfðagreiningar um aðstoð. Sýkla- og veirufræðideildin og Íslensk erfðagreining hafa nú ákveðið að snúa bökum saman til þess að auka afkastagetuna enn frekar. Áætlað er að hlusti starfsemi deildanna flytjist í aðstöðu Íslenskrar erfðagreiningar, við erum að undirbúa flutninginn og aðlaga hugbúnaðinn og ef allt gengur upp ætti sá flutningur að geta orðið í byrjun næstu viku. Við það mun afkastagetan aukast mjög mikið því að tækjabúnaður Íslenskrar erfðagreiningar er talinn geta afkastað allt að fimmþúsund sýnum á dag.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi