Starfsmaður hjúkrunarheimilisins Hamra smitaður

13.08.2020 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einn starfsmaður á hjúkrunarheimilinu Hömrum greindist með kórónuveirusmit í gær. Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs Eirar, Skjóls og Hamra, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í morgun. Hjúkrunarheimilið verður lokað fyrir heimsóknir næstu daga og einingin þar sem smitið greindist hefur verið sett í sóttkví

Kristín segir að um tvær klukkustundir hafi verið liðnar af vinnudegi starfsmannsins þegar jákvæðar niðurstöður bárust úr sýnatöku náins aðstandanda. Þá hafi starfsmaðurinn farið í sýnatöku og reyndist smitaður. Starfsmaðurinn hafði annast fáeina skjólstæðinga sem nú eru í einangrunarsóttkví. 

Á hjúkrunarheimilinu Hömrum, sem staðsett er í Mosfellsbæ, eru þrjátíu einstaklingsíbúðir fyrir aldraðra. 

Að sögn Kristínar vinnur smitrakningarteymi almannavarna nú að því að skoða hvort einhverjir af starfsmönnum Hamra verði sendir heim í sóttkví. Hún segir að einingin þar sem smitið greindist verði stúkuð af frá öðrum hlutum hjúkrunarheimilisins og að sama starfsfólk muni halda sig í þeirri einingu. Kristín segir að aðstandendur geti ekki heimsótt Hamra næstu daga, nema í algjörum undantekningartilfellum.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi